Á dögunum kynnti ríkisstjórn Íslands aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum til ársins 2030. Markmiðið með áætluninni er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Megináherslur í áætluninni eru tvær: Orkuskipti í samgöngum, með sérstakri áherslu á rafvæðingu í vegasamgöngum, og átak í kolefnisbindingu þar sem skógrækt og landgræðsla gegna lykilhlutverki og markvisst verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis.

„Það sem við kynntum var fyrsta útgáfa áætlunarinnar. Hún fer núna í samráð, þ.e. almenningur, félagasamtök og  hagsmunaaðilar geta öll komið með athugasemdir og önnur útgáfa lítur síðan dagsins ljós á næsta ári,“ segir Guðmundur. „Þetta er lifandi plagg. Ég hef lagt ríka áherslu á að það verði að vera lifandi, enda mjög mikilvægt að heyra sjónarmið almennings og mismunandi hagsmunaaðila. Ef við horfum t.d. á það sem Norðmenn hafa verið að gera þá eru þeir núna að endurskoða aðgerðaáætlunina sína og leggja mat á hvað hefur gengið vel og hvað má betur fara.“

Vegasamgöngur vega þungt

Að sögn Guðmundar er útlosun vegna vegasamgangna stór hluti af beinum skuldbindingum Íslands vegna Parísarsamkomulagsins. „Það sem við þurfum að líta á gagnvart okkar beinu skuldbindingum eru þættir eins og vegasamgöngur, sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, úrgangur og ákveðinn hluti iðnaðarins. Stóriðjan fellur ekki undir þær skuldbindingar sem eru á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda, heldur heyrir undir evrópskt kerfi með losunarheimildir sem ætlað er að draga úr losun frá starfsemi hennar. Alþjóðaflug fellur sömuleiðis ekki undir skuldbindingar einstakra ríkja. Ef við lítum á losun gróðurhúsalofttegunda í þeim geirum sem heyra undir okkar beinu skuldbindingar, þá eiga um 60% af losuninni upptök sín í bruna á olíu. Og meirihluti olíunotkunarinnar er í vegasamgöngum.

Þess vegna erum við að leggja áherslu á vegasamgöngur. Annars vegar að efla almenningssamgöngur og þá í tengslum við samgönguáætlun. Þar þurfum við að horfa til þátta eins og forgangsakreina fyrir strætó, hjólastíga fyrir reiðhjól og rafhjól og það að geta gert almenningi kleift að nota ekki  einkabílinn. Hins vegar munum við halda áfram að keyra bíla, við vitum það. Þeir eru ekki að hverfa 1, 2 og 3, þannig að við þurfum að fara í byltingu í þeim málum líka. Og þá komum við að rafbílavæðingunni.

Nú er raforka á Íslandi bæði ódýr og umhverfisvæn, finnst þér mögulega skjóta skökku við af hverju við erum ekki framar í rafbílavæðingunni?

„Já, klárlega. Þess vegna erum við að fara inn á þessa braut af krafti. Allt hvað varðar  drægni  og tækni, það er svona nokkurn veginn komið. Það sem vantar upp á er í rauninni að rafbílar séu samkeppnishæfir í verði. Nú þegar eru til staðar skattalegar ívilnanir á innflutningi rafbíla og  annarra  umhverfisvænni bíla. Við munum halda áfram með þær. Við munum setja inn ívilnanir sem eru líka fyrir stærri farartæki eins og strætisvagna og aðrar slíkar bifreiðar sem eru þá í atvinnurekstri. Spár gera síðan ráð fyrir að framleiðslukostnaður rafbíla verði í náinni framtíð orðinn lægri en hefðbundinna bifreiða, auk þess sem rekstrarkostnaður þeirra er margfalt lægri.

Verkefnið núna er meðal annars að stoppa og þétta í götin þegar kemur að því að geta hlaðið þegar þú ert á ferð um landið. Þessir þættir eru að færast í rétta átt en við þurfum að fjölga enn frekar möguleikum til  hraðhleðslu. Ákveðnir flöskuhálsar eru til staðar, til dæmis fyrir ferðamenn sem eru m.a. í Leifsstöð og á fjölsóttum ferðamannastöðum. Við viljum fara í það núna að ræða við ferðaþjónustuna og sveitarfélögin um það hvernig við getum gert þetta net sem best úr garði.

Þetta er sérstaklega mikilvægt varðandi bílaleigurnar. Þær flytja inn mjög stóran hluta af þeim bílum sem fara á eftirmarkað. Þess vegna er mikilvægt að gera þetta með ferðaþjónustunni þannig að uppbyggingin verði þannig að hún stuðli að þeirri nauðsynlegu breytingu sem við verðum að gera. Breytingu sem í grundvallaratriðum felst í því að umbylta orkukerfinu sem við erum að nota. Þetta er ekki einungis loftslagsmál. Þetta er á endanum ódýrara fyrir  neytandann, dregur úr loftmengun, þýðir meiri tekjur fyrir þau sem dreifa raforku um landið og við verðum ekki eins háð innflutningi á eldsneyti sem ætti að hafa jákvæð áhrif á gjaldeyrisskiptajöfnuð.“

Setja tappann aftur í baðið

Varðandi kolefnisbindinguna sem er hin megináherslan í aðgerðaáætluninni segir Guðmundur að þar sé fyrst og fremst verið að horfa til markmiðs stjórnvalda um að ná kolefnishlutleysi árið 2040. „Kolefnishlutleysi mun felast í því að við drögum eins mikið úr losun og við getum en síðan þegar ekki er tæknilega hægt að komast lengra tökum við það sem umfram er og bindum það í jarðvegi eða gróðri. Hvað varðar kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi þá er skynsamlegt að byrja strax vegna þess að  kúrfan  er þannig að það binst minnst fyrst en síðan þegar gróðurinn vex og dafnar eykst bindingin jafnt og þétt, bæði í auknum gróðri en ekki síður í jarðvegi.

Það eru fyrst og fremst þrjú atriði sem um ræðir. Í fyrsta lagi að stöðva jarðvegseyðingu svo við séum ekki að tapa kolefni út í andrúmsloftið og endurheimta birki og víðikjarr. Í öðru lagi er þetta endurheimt á votlendi, það er að segja að moka hreinlega ofan í skurði sem ekki eru í notkun. Þar erum við í raun ekki að binda kolefni úr andrúmsloftinu heldur að koma í veg fyrir að það losni upp úr mýrinni. Í þriðja lagi er síðan um að ræða nýskógrækt.

Mikil losun gróðurhúsalofttegunda verður frá framræstu votlendi og þess vegna er endurheimt þess mjög mikilvæg aðgerð. Það má hugsa sér þetta eins og að vera í byrjun með fullt baðkar. Þegar tappinn er tekinn úr og votlendið þurrkað verður niðurbrot á lífrænum efnum sem valda útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þetta er vegna þess að ekki eru lengur til staðar svokallaðar  loftfirrðar aðstæður. Þegar við setjum tappann aftur í baðkarið – mokum ofan í skurðina – og baðið fyllist á ný þá dregur gríðarlega úr þessari losun. Þetta er aðgerð sem skilar árangri strax.“