Pólsk stjórnvöld hafa kynnt einkavæðingaráform sín um að selja 49% af eignarhlut ríkisins í kauphöllinni í Varsjá, en sjálft mun ríkið halda eftir 51% hlut. Þetta kemur fram í frétt dagblaðsins International Herald Tribune á mánudaginn. Áætlun pólskra yfirvalda, sem var útlistuð í ræðu sem fjármálaráðherra landsins, Wojciech Jasinski, hélt í síðasta mánuði, gerir ráð fyrir því að einungis pólsk fyrirtæki megi kaupa hlut í fyrirhugaðri einkavæðingu kauphallarinnar. Virðist það ganga þvert á reglur Evrópusambandsins (ESB) um að ekki megi mismuna aðildarríkjum sambandsins.

Eins og svo oft áður í tíð núverandi ríkisstjórnar Póllands, þar sem hægri flokkur Lech Kaczynski og Jaroslaw Kaczynski fer með forystu, þá einkenndist ræða Jasinski af miklum þjóðernislegum undirtón. Samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar á að setja reglur sem miða að því að koma í veg fyrir að pólsk fyrirtæki sem eru skráð í kauphöllinni verði yfirtekin af erlendum fyrirtækjum, "til að tryggja að kauphöllin viðhaldi sínu pólska einkenni" eins og Jasinski sagði í ræðu sinni. Hann sagði að ekki kæmi til greina að selja eignarhlutinn til erlendra aðila. Slíkt myndi hafa hafa þá hættu í för með sér að gera kauphöllina í Varsjá háða erlendum fyritækjum sem tækju ekki tillit til pólskra hagsmuna.

Þessi umdeildu einkavæðingarform koma ári eftir að Pólland átti í deilum við framkvæmdastjórn ESB um hvort UniCredit frá Ítalíu yrði veitt heimild til að ráða algjörlega yfir pólskum banka sem fyrirtækið hafði keypt. Pólsk yfirvöld neituðu að samþykkja þá skoðun framkæmdastjórnarinnar að aðeins hún hefði lögsögu yfir fyrirtækjasamrunum á milli aðildarríkja ESB; að lokum tók UniCredit sjálft frumkvæði að því að leysa deiluna og ákvað að selja 200 af þeim 481 bankaútibúum sem það hafði tekið yfir.


Það bendir hins vegar margt til þess að þetta mál muni ekki leysast á farsælan máta. Simon Tilford, markaðssérfræðingur hjá evrópsku umbótarstofnuninni í London (e. Center for European Reform), lýsir furðu sinni á þessum einkavæðingaráætlunum pólskra yfirvalda og telur augljóst að þau brjóti í bága við reglur ESB. "Hvernig getur þeim hugsanlega dottið í hug að þetta sé í samræmi við þær skuldbindingar sem Pólland gekkst undir við inngöngu í ESB?" spyr hann. Samkvæmt reglum ESB er þess krafist að öll einkavæðingaráform innan sambandsins séu opin fyrirtækjum í öllum aðildarríkjum ESB.

Catherine Bunyan, talskona Charles McCreevy, sem fer með málefni innri markaðs ESB, sagði að framkvæmdastjórninni væri ekki kunnugt um þessi áform pólsku ríkisstjórnarinnar.

Einnig eru uppi áform um að pólska ríkisstjórnin muni styðja fjárhagslega við bakið á hugsanlegri útrás kauphallarinnar í Mið- og Austur-Evrópu; nú þegar hefur kauphöllin lýst yfir áhuga á að kaupa hluti á mörkuðum í Búlgaríu og Slóveníu. Þetta hefur vakið athygli fyrirtækja eins og OMX, sem er eigandi fjölmargra kauphalla á Norðurlöndum og í Eystrarsaltsríkjunum.

Mikil hækkun hefur verið á hlutabréfum í fyrirtækjum sem eru skráð í kauphöllinni í Varsjá að undanförnu, og telja sérfræðingar ljóst að skráðum fyrirtækjum þar muni fjölga verulega ef af einkavæðingu kauphallarinnar verður.