Hagnaður danska leikfangafyrirtækisins Lego jókst um 35% á fyrri helming þessa árs samanborið við sama tíma í fyrra. Fyrirtækið hagnaðist um tvo milljarða danskra króna á tímabilinu.

Samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu verða ráðnir 1.000 nýir starfsmenn til að takast á við vaxandi eftirspurn eftir vörum fyrirtækisins. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Eftirspurnin er helst eftir hinum nýju Lego Friends vörum, eða Lego Vinum, en vörurnar vöru heldur umdeildar þegar Lego kynnti þær fyrst til sögunnar. Fyrirtækið var meðal annars sakað um að ýta undir staðalímyndir kynjanna, til dæmis með því að hafa stelpurvörurnar bleikar.

Þrátt fyrir þetta hefur Lego selt tvöfalt fleiri vinapakka en áætlanir gerðu ráð fyrir.