Hluthafar í Apple hafa verið hvattir til að kjósa gegn launapakka sem Tim Cook, forstjóri félagsins, fékk á síðasta ári. Þetta kemur fram í grein hjá BBC nú á dögunum.

Í bréfi sem ráðgjafafélagið Institutional Shareholder Services (ISS) sendi til hluthafa Apple, er áhyggjum lýst yfir umfangi launapakkans. Jafnframt segir í bréfinu að helmingur launagreiðslna til Cook hafi ekki verið tengdar frammistöðu í starfi. Samkvæmt ISS voru launagreiðslur Cook um 1,447 sinnum hærri en laun hjá meðalstarfsmanni Apple.

Sjá einnig: Tim Cook fær greitt 13 milljarða

Cook, sem hefur gegnt starfi forstjóra Apple í rúman áratug og starfað fyrir félagið í meira en tvo áratugi, fékk 98,7 milljónir Bandaríkjadala í launagreiðslur á síðasta ári. Grunnlaun Cook námu 3 milljónum dala en hann fékk að auki 12 milljónir í hvatagreiðslur. Að lokum fékk hann 82 milljarða dala í formi hlutabréfa í Apple og naut ýmissa fríðinda, þar á meðal ferða með einkaþotum félagsins.

Hlutabréf Apple hafa hækkað um 1000% síðan Cook tók við sem forstjóri félagsins árið 2011. Félagið rauf 3 billjóna dala ($3 trillion) múrinn nú á dögunum, fyrst allra skráðra félaga í heimi. Bréf félagsins náðu þá tæpum 183 dölum á hlut. Virði félagsins stendur nú í 2,73 billjónum dölum ($2.73 trillion) og gengi bréfa félagsins er í 168 dölum á hlut.