Frumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfisráðherra um að fella niður lög um náttúruvernd var dreift á Alþingi í morgun. Náttúruverndarlögin áttu að taka gildi 14. apríl næstkomandi. Áform Sigurðar Inga um að leggja fram frumvarpið voru harðlega gagnrýnd þegar hann tilkynnti þau á vef ráðuneytisins fyrir fáeinum vikum.

Í greinargerð með frumvarpi Sigurðar Inga segir að miklar athugasemdir hafi verið gerðar við frumvarp til laga um náttúruvernd þegar það var til meðferðar í þinginu. „Stór hluti þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið eiga það sameiginlegt að gagnrýna skort á samráði auk þess sem gagnrýnt hefur verið að yfirbragð frumvarps þess er varð að lögum nr. 60/2013 einkenndist of mikið af boðum og bönnum. Athugasemdir sem gerðar voru í umsögnum um frumvarpið lutu m.a. að því að verkaskipting væri óljós milli ríkisstofnana innbyrðis og einnig milli ríkisstofnana og sveitarfélaga, orðskýringar væru óljósar og gæfu tilefni til mismunandi túlkunar og að skipulagsvald sveitarfélaga væri skert,“ segir í greinargerðinni.

Í frumvarpinu segir að telja verði að allar þær athugasemdir, sem gerðar hafi verið á frumvarpi til náttúruverndarlaga og reifaðar hafi verið, gefi tilefni til endurskoðunar á lögunum. Ljóst sé að vinna við endurskoðun laganna verði tímafrek þar sem um afar flókinn og viðamikinn lagabálk sé að ræða.