Arion banki tilkynnti í febrúar að hann ætlaði að skrá Haga, stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi, í Kauphöllina og bjóða hluti í félaginu til sölu. Jóhannes Jónsson, stofnandi Bónuss, og stjórnendur Haga fengu þó forkaupsrétt á 15% hlut.

Þessi leið mældist afar illa fyrir í samfélaginu og fannst fólki sem verið væri að færa mönnum sem höfðu siglt fyrirtækjum í þrot þau aftur á silfurfati án skuldabagganna sem þeim fylgdu. Lífeyrissjóðir landsins tóku í sama streng og neituðu að taka þátt í ætluðu hlutafjárútboði vegna forkaupsréttar Jóhannesar, enda höfðu þeir tapað tugum milljarða króna á skuldabréfum útgefnum af félögum sem áður voru í eigu Jóhannesar eða sonar hans, Jóns Ásgeirs.

Áhugaleysið varð til þess að Arion breytti um stefnu í málinu og í ágúst var Jóhannes látinn hætta störfum og afskiptum af Högum og forkaupsréttur hans felldur úr gildi. Í október var síðan tilkynnt um að Arion ætlaði sér að fá kjölfestufjárfesti að Högum sem ætti að eiga 15-29% í félaginu. Þegar tilboðsfrestur rann út í nóvember höfðu um tíu tilboð borist. Enn hefur ekki verið greint frá því hvort einhverju þeirra verður tekið.