Framtakssjóður Lífeyrissjóðanna festi kaup á kippu fyrirtækja í byrjun desember þegar hann gekk frá kaupum á Vestiu, dótturfélagi Landsbankans.

Fyrirtækin sem fylgja með í kaupum á Vestiu eru Icelandic Group, Teymi, Húsasmiðjan og Plastprent.

Í tilkynningu Framtakssjóðsins vegna kaupanna var tekið fram að kaupverð lækki úr 19,5 milljörðum króna í 15,5 milljarða króna, að lokinni áreiðanleikakönnun.

„Ástæður þessa eru tvennskonar. Annars vegar hefur verðmat eigna lækkað vegna breyttra forsendna og hins vegar hefur orðið að samkomulagi að ákveðnar eignir munu ekki fylgja með í kaupunum. Helsta breytingin frá fyrri samningi er að Landsbankinn heldur eftir 19% hlut í Icelandic Group í stað þess að selja félagið að fullu. FSÍ hefur kauprétt á þeim 19% hlut í allt að 12 mánuði,“ sagði í tilkynningunni.