Ólafur Ólafsson og stjórnendur Samskipa, þeir Kristinn Albertsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa á Íslandi, Hjörleifur Jakobsson, stjórnarformaður Samskipa, og Jens Holger Nielsen, gerðu samkomulag við lánardrottna félagsins í janúar 2010 um að þeir myndu eignast félagið.

Stærsti lánardrottinn félagsins var belgíski bankinn Fortis.

Í frétt Viðskiptablaðsins, þar sem fyrst var greint frá samkomulaginu, sagði meðal annars:

„Bankarnir Fortis og Arion töldu, eftir samningsferli með stjórnendum og hluthöfum, að Ólafur og samstarfsmenn hans gætu tryggt að lán til Samskipa yrðu greidd til baka. Bankarnir fóru fram á að lán til félagsins yrðu ekki afskrifuð, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, heldur yrði lengt í lánum og tryggt að nýir eigendur gætu ekki greitt arð út úr félaginu eftir eigin geðþótta. Fjárhagsleg staða Samskipa hefur verið þung og hafa kaup félagsins á erlendum félögum árið 2005 reynst því dýrkeypt. Eftir fjárhagslega endurskipulagningu er starfsemin talin standa traustum fótum.“