Arion banki tók yfir móðurfélag Íslenskra aðalverktaka (ÍAV) í lok árs 2009 eftir að samstæðan gat ekki greitt af tugmilljarða skuldum sínum við bankann.

Í mars síðastliðnum greindi Viðskiptablaðið frá því að IP-Verktakar, í eigu svissneska verktakafyrirtækisins Marti Contractors, hefði keypt verktakahluta ÍAV. Stærstur hluti skulda samstæðunnar og óarðbær fasteignaþróunarverkefni voru skilin eftir hjá Arion banka.

Fréttir voru sagðar af því að Gunnar Sverrisson og Karl Þráinsson, æðstu stjórnendur og fyrrum eigendur ÍAV, stæðu að baki tilboði IP-Verktaka. Þeir neituðu því harðlega.

Tæpum þremur mánuðum síðar keyptu Gunnar og Karl helmingshlut í IP-Verktökum á 399,5 milljónir króna. Þeir höfðu þar með eignast á ný stóran eignarhlut í arðbærasta hluta ÍAV-samstæðunnar eftir að þorri skulda hennar hafði verið fjarlægður.