Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur skipað starfshóp sem skila mun lögfræðiáliti um það hvort núverandi fyrirkomulag smásölu áfengis hér á landi standist EES-samninginn.

Umdeilt hljóti að vera orðið að þau lýðheilsusjónarmið, sem á sínum tíma voru lögð til grundvallar undanþágu Íslands frá reglum samningsins um frjáls vöruviðskipti, eigi við í dag.

Í kjölfarið verði svo skoðað að kalla eftir ráðgefandi eftirliti EFTA-dómstólsins, sem knúið gæti Alþingi til að breyta reglunum.

„Við munum öll eftir, eða mörg okkar, flest kannski, eftir þeirri baráttu sem átti sér stað á sínum tíma um að leyfa bjórsölu á Íslandi,“ sagði Jón á streymisfundi Félags atvinnurekenda um áfengismarkað í dag, og vísaði þar til þess þegar sala bjórs var leyfð fyrir tæpum 33 árum síðan, þann 1. mars 1989, eftir að hafa verið bönnuð mestalla 20. öldina, eða frá 1915.

„Þar var stórt skref stigið, en við höfum ekki náð að fylgja því eftir í að gera breytingar á þeirri löggjöf sem um þetta fjallar.“

Jón reifaði tilraunir þingmanna Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum til afnáms einkasöluréttarins með ítrekuðum þingmálum. „Staðan er einfaldlega þannig að við höfum bara verið algerlega undir í þinginu, og aldrei hafa þessi þingmál náð að rata inn.“

„Ég held það sé alveg sama hvernig við lítum á það, það hlýtur að vera orðið mjög umdeilt að þessi lýðheilsusjónarmið sem á sínum tíma voru lögð til grundvallar, eigi hreinlega við í dag,“ sagði Jón og tók dæmi af stórbættu aðgengi, úrvali og þjónustu í kring um áfengissölu ríkisins. „Þegar þetta leggur sig allt saman þá er þetta auðvitað bara orðin nútímamarkaðsetning á þessari vöru og allt gert til að selja meira, á sama tíma og lýðheilsusjónarmið áttu að liggja til grundvallar.“