„Mál þetta er mjög umfangsmikið, en þó meira en efni standa til,“ segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, sem úrskurðaði í dag að innstæður á Icesave-reikningum Landsbankans teljast forgangskröfur í þrotabú bankans.Almennir kröfuhafar sóttu málið og höfnuðu því að kröfur innstæðueigenda Icesave-reikninganna væru forgangskröfur samkvæmt neyðarlögunum sem voru sett árið 2008 .

Í dóminum segir að umfang sé meira en efni standa til vegna þess að í málatilbúnaði nokkurra sóknaraðila er í löngu máli rakinn aðdragandi efnahagskreppunnar sem hér varð í október 2008 og leiddi til falls allra stærstu bankanna, ásamt því að lagðar eru fram ýmsar skýrslur og álitsgerðir innlendra og erlendra aðila. Ekki verður séð að gögnin hafi beina þýðingu fyrir úrlausn málsins, segir í niðurstöðum.

„Af þeim gögnum eru síðan dregnar ályktanir og teflt fram málsástæðum sem ekki eiga heima í máli þessu. Í málinu er engu að síður tekist á um gífurlega háar fjárhæðir og eru hagsmunir málsaðila augljósir, ekki einasta hagmunir varnaraðila, heldur einnig sóknaraðila. Því verður í öllu tilliti að telja réttmætt og eðlilegt að þau álitaefni sem hér að framan eru rakin og ágreiningur stendur að sönnu um séu leidd til lykta fyrir dómstólum.“