Seðlabankinn hefur lækkað hámarksupphæð sem má gefa milli landa um helming. Upphæðin nemur núna fimm milljónum króna á almanaksárinu en var 10 milljónir króna fyrir 31. október síðastliðinn.

Að auki þarf gefandinn að sýna fram á að hann sé raunverulegur eigandi verðmætanna, segir Ingibjörg Guðbjartsdóttir forstöðumaður gjaldeyriseftirlits Seðlabankans.

Ingibjörg segir að gjaldeyrisreglur hafi verið endurbættar með það að leiðarljósi að draga úr misræmi og loka glufum sem notaðar voru til að fara í kringum höftin. Hún geti annars ekki staðfest einstök dæmi um hvernig þessar glufur voru notaðar.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins söfnuðu einstaklingar kennitölum til að gefa gjafir að hámarki tíu milljónir króna. Þannig jukust gjafir Íslendinga til útlendinga um rúmlega 1500%.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .