Samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar er umferðin í apríl 2009 heldur meiri en hún var í apríl í fyrra en nánast sú sama og hún var í apríl 2007.

Umferðin á 16 völdum stöðum á Hringveginum reyndist að meðaltali ríflega 6 prósentum meiri í apríl í ár. Hinsvegar er aukning fyrstu fjóra mánuðina aðeins 0,7 prósent og er umferðin í ár nánast alveg sú sama og hún var 2007.

Mjög mismundandi er þó eftir landsvæðum hvernig umferðin hefur þróast milli ára. Þannig er 22,9% aukning á Austurlandi., 13,1% á Norðurlandi, 9,2% á Vesturlandi og 8,5% á Suðurlandi. Höfuðborgarsvæðið sker sig þó úr hvað umferð varðar, en þar var hún minni en á sama tíma í fyrra eða sem nemur –2,3%.

Bendir Vegagerðin á að páskaumferðin kunni að hafa haft áhrif á þessar niðurstöður, en páskarnir voru í mars árið 2008 en í apríl á þessu ári. Ef þessir tveir mánuðir eru inni í samanburðartölunum, þá er aukningin milli ára aðeins 0,7%.