Nú liggja fyrir niðurstöður Flugmálastjórnar í Keflavík um farþega sem fara um völlinn. Til landsins komu 692.505 farþegar sem er 108.673 fleiri en í fyrra eða 18,61%. Farþegum héðan fjölgaði um 99.436 og urðu 672.196 sem er 17,36% aukning. Inni í þessum tölum eru bæði Íslendingar og útlendingar hverra erinda sem þeir eru hingað komnir. Þó ekki sé með þessum tölum hægt að segja til um aukningu í komum erlendra ferðamanna þá gefa þær vísbendingu um aukið umfang ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar.

Það verður þó ekki fyrr en bæði talning gistinátta liggur endanlega fyrir og niðurstöður um gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum hefur verið gefin út, að hægt er með vissu að segja til um hvernig árið 2004 var í samanburði við fyrri ár.