Sjónvarpið, Stöð 2 og Skjár 1 hafa lagt Umferðarstofu lið í baráttunni fyrir bættri umferðarmenningu og fækkun umferðarslysa á Íslandi. Sjónvarpsstöðvarnar munu sýna í dagskrá sinni 24 fræðslumyndir sem Umferðarstofa hefur látið gera. Framleiðsla fræðslumyndanna er liður í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda.

Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu.

Myndirnar er hægt að skoða á heimasíðu Umferðarstofu www.us.is en þær gagnast mjög vel til almennrar umferðarfræðslu. Þá býður Umferðastofa öðrum vefmiðlum sem láta sig umferðaröryggi varða að tengja myndirnar inn á sínar vefsíður.

Í myndunum er fjallað um ýmis atriði sem vert er að  rifja upp hvort sem farið er um á  bíl, bifhjóli, eða reiðhjóli. Sem dæmi um efnistök má nefna að fjallað er um þær reglur sem gilda um akstur í hringtorgum, val á akreinum, framúrakstur, bil á milli bíla og ýmis þau atriði sem ökumenn bifhjóla þurfa helst að varast.

Fræðslumyndirnar eru frá 30 sek og upp í tæpar tvær mínútur. Umferðarstofa annaðist gerð handrits í samstarfi við fulltrúa ökukennara og félagasamtaka bifhjólamanna en Prófilm sá um framleiðslu.

Nýju myndirnar eru enn sem komið er einungis í íslenskri útgáfu. Umferðarstofa hefur einnig látið gera fræðslumynd á fjórum tungumálum sem hugsuð er fyrir erlenda ferðamenn. Hún er m.a. aðgengileg á landkynningarvefjum Ferðamálastofu