Þrátt fyrir að sérstakur rýnihópum sem hafi farið yfir öryggismál framkvæmdanna við Miklubraut hafi lagt það til að leitað yrði allra leiða til að tryggja tvær akreinar í hvora á átt á framkvæmdatímanum virðist sem Reykjavíkurborg ætli sér að halda sig við að þrengja á milli Lönguhlíðar og Rauðarárstíg niður í eina akrein öðrum megin í allt sumar.

Segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags bifreiðaeigenda í pistli á vef síðunnar að umferðarstjórnun á framkvæmdasvæðinu hafi brugðist, því bent hafi verið á að hægt yrði að hafa tvær þrengri akreinar þar sem meginhluti umferðarinnar gæti farið í tveimur rásum.

Veldur töfum um allt höfuðborgarsvæðið

Jafnframt hafi verið lagt til að á sama tíma yrði hámakrshraði lækkaður, á framkvæmdasvæðinu, sem samhliða tveimur akreinum myndu tryggja betra umferðarflæði og öryggi um þessa meginstofnað Reykjavíkur.

Þess í stað valda þrenginarnar við Klambratún umferðarteppum og töfum út um allt höfuðborgarsvæðið, enda veldur þetta ástand því að gatnamót hreinsast ekki sem skildi annars staðar á Miklubraut og Hringbraut, sem aftur valdi töfum á norður- suður akstursleiðum.

Mikil uppsöfnuð malbikunarþörf um alla borg

Þetta, auk mikillar uppsafnaðrar þarfar á malbikunarframkvæmdum sem hafi setið á hakanum valdi því að stór hluti vegfarenda verði fyrir verulegum óþægindum. Jafnframt segir hann að ekki virðist sem gert hafi verið ráð fyrir því að tryggja forgang viðbragðsaðila lögreglu, sjúkraliðs og slökkviliðs á framkvæmdasvæðinu og víðar. Valdi þetta því að Landspítalinn sé nánast hafður í gíslingu á háannatímum.

„Sú sjálfsagða krafa er gerð til þeirra sem reka umferðarmannvirkin í borginni að allt verklag sé meðvitað með öryggi og þægindi borgaranna í fyrirrúmi,“ segir Runólfur í pistlinum. „Ekki þýðir að benda á aðra samgöngumáta, öll umferð teppist. Það er verið að búa til óþarfa vandamál, óþægindi, tafir og mengun sem koma má í veg fyrir með aukinni fyrirhyggju og skipulagi.“

Borgin bakkaði með algera lokun Geirsgötu

Einnig bendir hann á fréttir þess efnis að loka eigi Geirsgötu í að minnsta kosti hálfan mánuð líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um. Segir hann embættismenn hafa heldur dregið í land í kjölfar neikvæðrar umræðu síðan og sagt ekki verði um algera lokun að ræða. Vill hann að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar geri líkt hið sama varðandi Miklubraut og hlusti á íbúa og notendur.

Bendir hann á að á nesinu sem borgin liggji sé stærsta útgerðar- og olíuhöfn landsins, sem og annað sveitarfélag, á öðrum enda þess, sem þurfi að koma afurðum til og frá, og að Miklabraut annars vegar og Mýrargata, Geirsgata og Sæbraut hins vegar séu aðaltengileiðirnar fyrir þessi svæði.

„Skipulag og verklag umferðarstjórnunar í tengslum við núvarandi framkvæmdir í borgarlandinu hefur brugðist. Vonandi sjá aðilar að sér og bæta ástandið sem fyrst,“ segir Runólfur. „Fara þarf að ráðum sérfræðinganna sem unnu öryggisrýnina og tryggja tvöföldun akstursleiða við Klambratún á framkvæmdatímanum. Vafalítið gætu aðrar aðgerðir einnig hjálpað til.“