Umferð í Hvalfjarðargöngum var 2,7% minni í desember 2008 en í sama mánuði árið þar á undan. Samdrátturinn var umtalsvert meiri í október og nóvember en í jólamánuðinum miðað við sama tímabil 2007 segir í frétt á heimasíðu Spalar.

Þar kemur fram að einkabílum á ferð undir Hvalfjörð fækkaði lítið sem ekkert í desember en samdráttur í umferðinni stafar hins vegar af fækkun flutningabíla og annarra atvinnuökutækja. Það er reyndar markverð breyting sem varð greinilega vart líka í nóvember.

Alls fóru 130.650 ökutæki um göngin í desember 2007 en 127.200 í desember 2008, sem er samdráttur upp á tæplega 2,7%. Til samanburðar má geta þess að umferðin í nóvember 2008 dróst saman um 6% og um 10,5% í október. Kreppueinkennin voru því að þessu leyti minna áberandi á jólaföstunni en mánuðina þar á undan.

Í árslok 2008 voru 14.750 áskriftarsamningar um ferðir í gildi við Spöl og alls 36.600 veglyklar í notkun hjá áskrifendum.