Rúm­lega hundrað fjöl­miðlamenn komu til Íslands í skipu­lagðar fjöl­miðlaferðir á ár­inu 2015 og yfir 520 blaðamenn fengu beina aðstoð við að skipu­leggja Íslands­ferðir sín­ar. Í kjöl­far þess birt­ust í heild­ina um 750 grein­ar í er­lend­um fjöl­miðlum. Umfjöllunin náði til rúmlega 1,3 milljarðs manna og metur Íslandsstofa virði hennar á yfir 84 milljónir evra eða um 11.8 milljarða íslenskra króna.

Þetta kem­ur fram í árs­skýrslu Íslands­stofu þar sem jafnframt segir að stofnunin og almannatengslaskrifstofur á hennar vegum hafi verið í samskiptum við meira en 2600 fjölmiðlamenn á árinu. Sem dæmi um fjölmiðla má nefna New York Times, Al Jazeera, National Geographic, GEO, The Guardian, Elle og Financial Times.

Í samtali við Morgunblaðið segir Inga Hlín Páls­dótt­ir, for­stöðumaður ferðaþjón­ustu og skap­andi greina hjá Íslands­stofu, grein­ar og um­fjall­an­ir í er­lend­um miðlum áhrifa­meiri en aug­lýs­ing­ar. Segir hún að blaðagrein sem birt­ist um landið sé 2,6 sinn­um meira virði en aug­lýs­ing sem greitt er fyr­ir.