Erlendir markaðsaðilar taka lítið mark á umfjöllun Ekstra Bladet um meint skattsvik íslenskra fyrirtækja í Danmörku."Umfjöllunin inniheldur engar tölur eða staðreyndir sem mark er takandi á. Ég stórefa að þessi umfjöllun hafi áhrif, þetta er líklega hefndaraðgerð vegna þess að Íslendingar byrjuðu fríblaðastríðið svokallaða í Danmörku," sagði miðlari alþjóðlega bankans ABN AMRO.

Danska götublaðið Ekstra Bladet hefur nú birt fremur neikvæða umfjöllun um íslensk fyrirtæki og fjármálalíf undanfarna þrjá daga án þess að nokkur áhrif hafa orðið á mörkuðum það sem af er þessari viku. Krónan veiktist um 2% á föstudaginn í kjölfar þess að út Ekstra Bladet gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi og gaf út að Ísland yrði tekið fyrir á síðum blaðsins. Krónan styrktist hinsvegar um 0,96% á mánudaginn og um önnur 0,79% í gær.

Þá hefur álag á skuldatryggingum bankanna á eftirmarkaði, sem oft er notað sem mælistika á traust markaðsaðila til bankanna nánast staðið í stað frá því síðasta fimmtudag, en samkvæmt upplýsingum frá markaðsaðilum hefur Kaupþing hækkað um hálfan punkt sem er eðlileg breyting. Flestir sérfræðingar hér á landi telja umfjöllun Ekstra Bladet uppspuna í versta falli en grófan misskilning í besta falli.

"Gleymið umfjöllun Ekstra Bladet, hún á ekkert erindi við fjárfesta sem hafa áhuga á íslenska markaðnum," segir í pósti frá greiningadeild Danske Bank sem sendur var til markaðsaðila í gær. Mikils viðsnúnings hefur gætt í skilaboðum frá Danske Bank en á föstudaginn lak innanhúspóstur greiningardeildar bankans til markaðsaðila og viðskiptavina bankans, þar sem fjárfestar voru varaðir við að umfjöllun Ekstra Bladet gæti valdið lækkunarhrinu íslensku krónunnar og jafnvel smitast til annara hávaxtamynta í Mið- og Austur-Evrópu.

Í tölvupóstinum, sem Lars Christensen hagfræðingur greiningardeildar bankans, ritaði segir: "Í síðustu viku þegar ég heimsótti Ísland gerði Roman Abramovich það líka. Hann hitti forseta Íslands ... en það er auðvitað "eðlilegt" ... eða hvað? Engar vangaveltur hér -- aðeins athugun. Svo varið ykkur þarna úti."

Lars Christensen sagðist í samtali við Viðskiptablaðið lítið geta sagt um efni tölvupóstsins annað en að athugasemdir hans hafi verið verið misskildar þar sem þær voru sagðar í gríni. "Það var skemmtileg tilviljun að Roman Abromovich var staddur á sama tíma og ég á Íslandi og því hafði ég þetta í flimtingum á þennan hátt," sagði Lars.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.