Indriði H. Þorláksson var farinn að sjá fram á náðuga daga sem eftirlaunaþegi þegar Steingrímur J. Sigfússon, nýorðinn fjármálaráðherra í minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, bað hann um að taka að sér ráðuneytisstjórastöðuna af Baldri Guðlaugssyni, frá febrúar og fram til loka apríl.

„Ég lét plata mig aftur í atið,“ segir Indriði í samtali við Viðskiptablaðið, og óhætt er að segja að hann hafi verið mikið í sviðsljósinu síðan þá. Ekki síst vegna starfa sinna í samninganefnd Icesave en hann fór þar inn á sama tíma og Svavar Gestsson tók við formennsku í lok febrúar.

„Steingrímur hafði samband við mig þegar hann varð fjármálaráðherra og spurði hvort ég væri tilbúinn til að koma og vera honum til aðstoðar,“ segir Indriði.

„Ég býst við að hann hafi talið að ég hefði einhverja nýtanlega reynslu. Ég hef stundum sagt að hann hafi beðið mig um að koma því hann vissi að ég rataði milli herbergja í ráðuneytinu,“ segir Indriði kíminn og vísar til þess að hann hafi verið skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu um langt árabil. Seinna varð hann ríkisskattstjóri og gegndi því embætti á árunum 1999 til 2006.

Hér er birt eilítið brot úr umfjölluninni:

Hefurðu pólitískan metnað og gætirðu kannski hugsað þér frekari metorð á hinum pólíska vettvangi?

„Það er örugglega engin hætta á því að ég beiti mér á þeim vettvangi.“

En ertu kannski þrettándi ráðherrann í ríkisstjórninni þegar allt kemur til alls?

„Ég veit ekki betur en að það séu bara tólf ráðherrar í ríkisstjórninni og stefnt sé að fækkun þeirra. Ég held að þetta sé því algjört ofmat og rangmat á mínu hlutverki.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu og meðal annars rætt við fyrrverandi samstarfsmenn Indriða.. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .