Franski bankinn Societe Generale (SG) segir í skýrslu í dag að umræðan um íslensku bankanna hafi snúist við eftir fjölda neikvæðra greininga fyrr á þessu ári.

Ástæðuna segir SG vera sterk uppgjör á örðum ársjórðungi og aukinn skilningur á starfsemi bankanna. Greiningardeild bankans segir að staða endurfjármögnunar bankanna sé góð.

Einnig bendir franski bankinn á að Landsbanki Íslands skili mestri arðsemi og að líklegast sé að álag á skuldatryggingar Landsbankans dragist mest saman, eftir að álagið hækkaði snögglega fyrr á þessu ári og varð til þess að íslensku viðskiptabankarnir þrír hafa ekki treyst sér til að sækja fjármagn á skuldabréfamarkaði.

Gengi hlutabréfa Glitnis hefur hækkað um 1,8% það sem af er degi og Kaupþing banki um 1,1%. Gengi hlutabréfa Landsbankans hefur staðið í stað, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands.