Stjórnarformaður Baugs segir að ástandið á gjaldeyrisskiptamarkaði hér á landi sé stórhættulegt og nauðsynlegt sé að tryggja eðlilegt gjadeyrisflæði á Íslandi.

Að sögn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns Baugs Group, mun endurskipulagningin nú gera fyrirtækinu hægar um vik að takast á við þau fjárfestingarverkefni sem beðið hafa á borði þess undanfarið.

„Það er augljóst að það verður hægara um vik en þetta mun losa um peninga og lánalínur hjá okkur sem hafa verið bundnar við annað undanfarið. Þetta gefur Baugi gott andrými,“ sagði Jón Ásgeir.

Baugur hefur sett fram óformlegt yfirtökutilboð í Moss Bros, upp á 42 pens á hlut, eða sem nemur um 40 milljónum punda. Nú fer fram áreiðanleikakönnun Baugs á yfirtökunni og sagðist Jón Ásgeir vænta þess að geta lokið málinu fyrir lok apríl. Jón sagðist ekki hafa áhyggjur af tilburðum annara til að koma að málinu og hann sagðist ekki hafa verið trúaður á að nokkur alvara lægi að baki skoðun Debenhams sem hefur farið fram á að skoða bækur Moss Bros.

„Það hefur aldrei verið ætlun Debenhams að kaupa þetta. Þeir vildu bara forvitnast hvernig fyrirtækið væri byggt upp. En það eru einhverjir aðrir þarna, það er ljóst.“

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .