Fjárfestingasjóðurinn Novator hefur aukið hlut sinn í 23% í pólska símafyrirtækinu Netia eftir að kauptilboði í 13% hlutvar tekið af fjölda hluthafa, segir í tilkynningu frá Netia.

Novator, sem stjórnað er af Björgólfi Thor Björgólfssyni, opinberaði kauptilboð í hlutinn í fyrra á genginu 6.15 pólski zloty, og sagði að takmarkið væri að eignarst 25% hlut.

Viðskipti með bréf í Netia hafa farið fram undir kauptilboðinu og var lokagengi bréfanna í gær 5,8 zloty, sem leiddi til umframboðs og 4,7 sinnum fleiri hluthafar buðu bréf sín til sölu en þurfti. Hluthafar í Netia vildu selja samtals 246 milljónir hluta en Novator hafði sóst eftir 52 milljónum hluta samkvæmt kauptilboðinu, segir í tilkynningunni.

Ekki er vitað hvort að Novator hafa ákveðið að auka hlutinn enn frekar í kjölfar umframboðsins. Novator mun greiða 321 milljón zloty fyrir 13% hlutinn, sem samsvarar um 102 milljónum Bandaríkjadala, eða um rúmlega sex milljörðum króna.