Samtals bárust áskriftir fyrir 1.652 milljónir króna í almennu hlutafjárútboði í Vodafone sem lauk í dag. Eftirpsurn var um 1,6 föld miðað við þann 10% hlut sem boðinn var til sölu af Framtakssjóði Íslands. Útboðsgengið var 31,5 krónur á hlut en það réðst af niðurstöðum lokaðs útboðs sem var haldið síðasta mánudag.

„Í lokaða hluta útboðsins mánudaginn 3. desember síðastliðinn bárust samtals tilboð fyrir 9.969 milljónir króna frá fjárfestum. Í þeim hluta voru í boði 40% hlutafjár í félaginu sem voru í eigu Framtakssjóðs Íslands. Samtals bárust því áskriftir fyrir 11.621 milljónir króna eða sem nemur um 2,2 faldri umframeftirspurn miðað við þann 50% hlut sem boðinn var.

Í ljósi umframeftirspurnar mun Framtakssjóður Íslands, í samræmi við efni kafla 4.5. í verðbréfalýsingu, auka við framboðið og selja til viðbótar sem nemur 10% hlutafjár í Vodafone, eða samtals 60% af hlutafé félagsins. Í lokaða hluta útboðsins verða seldir samtals 164.333.265 hlutir eða sem samsvarar 49% hlutafjár og í opna hluta útboðsins verða seldir 37.053.855 hlutir eða sem samsvarar 11% hlutafjár. Við úthlutun leitaðist Framtakssjóður Íslands við að uppfylla skilyrði kauphallar um skráningu, hámarka söluverðmæti, fá að félaginu sterka langtímaeigendur og stuðla að virkum íslenskum hlutabréfamarkaði,“ segir í tilkynningu.

Framtakssjóður Íslands á eftir viðskiptin 19,7% hlut í félaginu.