*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 15. desember 2007 12:03

Umframeftirspurn í útboði FL Group

Hlutur Baugs Group 36,5%

Ritstjórn

Fjárfestar skráðu sig fyrir hlutafé að andvirði 20,6 milljarðar króna í útboð FL Group [FL] sem lauk í gær. Til sölu í útboðinu voru nýir hlutir fyrir 10 milljarða króna og auk þess seldi Baugur Group fyrir 5 milljarða króna í samræmi við áður kynnta samninga um kaup FL Group á hlutum í fsteignafélögum og -sjóðum af Baugi Group, að því er segir í tilkynningu frá FL Group. Eftir útboðið verður hlutur Baugs í FL Group 36,5%, Gnúpur verður með 12,1%, Oddaflug 10,9%, Materia 6,3% og Fons 6,1%.

Í tilkynningunni er haft eftir Jóni Sigurðssyni forstjóra FL Group að niðurstaða útboðsins sé einstaklega ánægjuleg og staðfesti trú fjárfesta á þeim breytingum sem kynntar hafi verið. „Eignasafn okkar er fjölbreytt og undirliggjandi rekstur okkar fyrirtækja er góður. Þrátt fyrir tímabundinn óróa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum þá felast í þeim mikil tækifæri til framtíðar. Fjárhagslegur styrkur FL Group hefur aldrei verið meiri og er félagið vel í stakk búið til að takast á við ný verkefni og að halda áfram að styðja við sínar lykilfjárfestingar,“ segir Jón Sigurðsson í tilkynningunni.