Umframeftirspurn var í hlutafjárútboði Marels Food Systems [ MARL ] sem lauk í gær.

Áskriftir í útboðinu voru alls 446 fyrir samtals 14,9 milljarða króna að markaðsverði, sem er tæplega 7% umframeftirspurn.

Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallar Íslands, þar sem segir ennfremur að stjórn félagsins hafi ákveðið að nýta ekki heimild til að fjölga hlutum í útboðinu.

Landsbankinn minnkar hlutdeild sína

Hluthöfum og fagfjárfestum verður úthlutað bréfum í samræmi við áskriftir fyrir utan að Landsbanki Íslands, sem hafði umsjón með útboðinu og var fyrir útboðið annar stærsti hluthafinn í Marel, minnkar eign sína hlutfallslega.

Í tilkynningunni segir að stjórn Marels vilji stuðla að dreifðari eign og auknu floti bréfa félagsins.

Marel þakklátt fjárfestum

Fjármögnun á kaupum á Stork Food Systems lýkur með þessu hlutafjárútboði.

Í tilkynningu er haft eftir Herði Arnarsyni forstjóra Marels Food Systems að félagið sé þakklátt fjárfestum fyrir stuðninginn sem þeir sýni með þátttöku í útboðinu og í fyrri útboðum.

„Þannig má benda á að á síðustu tveimur árum hefur Marel Food Systems hf. aflað ríflega 34 milljarða króna með sölu nýrra hluta og skuldabréfa, á tímabili sem markast hefur af miklu ytri vexti, en við tekur tímabil þar sem aðal áherslan verður lögð á innri vöxt og aukningu hagnaðar,“ er haft eftir forstjóranum í tilkynningunni.