Í tengslum við útgáfu Kaupþings banka á nýjum hlutum, hafa Citigroup Global Markets Limited og Morgan Stanley & Co. International Limited, sem umsjónaraðilar útboðsins og áskriftarsöfnunar, tilkynnt um að þeir nýti til fulls, fyrir hönd hinna upphaflegu kaupenda (e. initial purchasers), umframsöluréttinn (e. over-allotment option) sem veittur var, að því er varðar 9,9 milljón nýja hluti í bankanum, segir í tilkynningu Kaupþings banka.

Þá hefur stjórn bankans samþykkt að auka hlutaféð í bankanum um 9,9 milljón hluti.

Viðbótarheildarafrakstur Kaupþings af sölu hluta vegna nýtingar umframsöluréttarins (e. additional gross proceeds) nemur 7,4 milljörðum króna, segir í tilkynningunni.

Að meðtaldri nýtingu umframsöluréttarins nam stærð útboðsins samtals 75,9 milljón hlutum. Heildarafrakstur útboðsins nemur 56,9 milljörðum króna. Verð á hlut var 750 krónur / 75 sænskar krónur.

Eftir nýtingu umframsöluréttarins verður heildarhlutafé í Kaupþingi 740.453.053 hlutir, hver að nafnvirði 10 krónur. segir í tilkynningunni.

Umsjónaraðilar útboðsins og áskriftarsöfnunar voru Citigroup Global Markets Limited og Morgan Stanley & Co. International Limited. Þriðji umsjónaraðili í útboðinu var Fox-Pitt, Kelton N.V. Kaupþing banki aðstoðaði við sölu hlutanna (e. selling agent).