Eftir bankakreppuna blossaði upp reiði víða um heim og var ekki að undra. Til voru þeir hér á landi sem litu á þá óánægju alla sem fundið fé fyrir sig og ýttu því undir hana, sem mest þeir máttu, meðal annars til að reyna koma Íslandi í Evrópusambandið og til að gera breytingar á stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands. Fjallað er um stjórnarskrármálið, auk annarra mála, í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í Sunnudagsmogganum.

Höfundur segir að enginn vitiborinn maður hafi reynt að tengja stjórnarskrána við bankahrunið og hinir hafi ekki fært nein skiljanleg rök fyrir slíkum kenningum.

„En á hinn bóginn tengjast þessi tvö mál, aðild að ESB og stjórnarskráin. Og það er næsta sérkennilegt að þeir sem töldu sig mestu áhugamenn um að umturna stjórnarskrá Íslands hafa jafnframt verið ákafamenn um aðild Íslands að ESB. Og hvað er svo sérkennilegt við það? Það ætti að vera augljóst, því að aðild Íslands að Evrópusambandinu getur aldrei komið til að óbreyttri stjórnarskrá. Um það er ekki lögfræðilegur ágreiningur,“ segir í Reykjavíkurbréfinu.

Hann segir að þingmenn skuldbindi sig til að samþykkja aldrei neitt, né aðhafast nokkuð sem stangaðist á við fyrirmæli og eftir atvikum anda stjórnarskrárinnar.

„Það var því mjög ósvífið að leggja í för undir yfirskrift aðildarumsóknar, til að breyta fjölda reglna og laga landsins í átt að regluverki Evrópusambandsins, vitandi að slík aðild stæðist ekki gildandi ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er auðvitað gild pólitísk afstaða að vilja að Ísland gerist aðili að ESB. En ætli menn sér að berjast fyrir slíku hlýtur fyrsta skrefið að vera að afla fylgis við breytingu á stjórnarskránni. Það er ekki trúverðugt þegar þeir menn sem láta eins og kollvörpun á íslensku stjórnarskránni sé forsenda framfara í landinu ganga hiklaust á svig við þá sömu stjórnarskrá.“

Höfundur Reykjavíkurbréfsins heldur áfram:

„Þar sem enga sérstaka nauðsyn bar til þess að breyta lýðveldisstjórnarskránni vegna bankahruns og aðeins mjög óljós og ruglingslegur texti lá fyrir um nýja stjórnarskrá, eftir nokkurt húllumhæ, kom verulega á óvart, að í lok kjörtímabilsins var með atbeina þáverandi stjórnarandstöðu samþykkt breytingartillaga til bráðabrigða á stjórnarskránni til að auðveldara yrði að breyta á henni á þessu kjörtímabili. Þar með var hægt að samþykkja breytingu á stjórnarskrá á einu kjörtímabili (í þetta eina sinn) en ekki á tveimur sem er meginregla íslensku stjórnarskrárinnar. Þarna umgengust menn stjórnarskrána af óboðlegri léttúð í þeim tilgangi einum að auðvelda þinglok seinasta kjörtímabils! Þegar þannig er gengið um helgustu hluti hverrar löggjafarsamkundu er ekki að undra þótt álit almennings á henni sé í sögulegu lágmarki.“