„Séu hlutföllin skoðuð þá sjáum við vöxt í þeim, sem er mjög ánægjulegt,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar. Gréta tók við starfinu í fyrra en hún hafði áður verið fjármálastjóri Festis.

Á síðasta ári gengu í gegn kaup N1 hf. á Festi en síðarnefnda félagið átti og rak Krónuna, Nóatún, Kjarval og ELKO. Endanlegt kaupverð nam rúmlega 23,7 milljörðum króna. Eftir kaupin var afráðið að breyta fjárhagsári Krónunnar en það hafði áður náð frá fyrsta degi marsmánaðar til síðasta dags febrúar. Framvegis mun reikningsárið fylgja almanaksárinu en af þeim sökum tekur uppgjör síðasta árs aðeins til síðustu tíu mánaða þess. Á þeim tíma hagnaðist Krónan um rúmlega 682 milljónir króna en hagnaður fjárhagsársins þar á undan nam tæplega 779 milljónum.

„Við erum auðvitað á markaði þar sem keppt er á verðum og við höfum staðið okkur vel í verðkönnunum hjá ASÍ. Viðskiptavinir okkar geta komið, verslað á samkeppnishæfu verði og fengið allt á einum stað. Við höfum hins vegar markað okkur sérstöðu með því að leggja ríka áherslu á lýðheilsu- og umhverfismál. Í fyrra lokuðum við til að mynda nammibörum en áður höfðum við tekið allt sælgæti úr rekkunum við kassana. Eina bland í poka sem nú er í boði er bland í poka af ávöxtum. Síðan höfum við boðið upp á bita fyrir börnin,“ segir Gréta María.

Krónan hefur undanfarið verið framarlega í því að minnka plastnotkun. Viðskiptavinum, sem það kjósa, stendur til að mynda til boða að losa sig við plastumbúðir utan af vörum strax í versluninni. Þá segir framkvæmdastjórinn að alltaf sé verið að leita leiða til að draga úr umbúðasóun. „Við erum alltaf að skoða í vöruúrvalinu hvar við getum bætt okkur og verið með umhverfisvænni kosti þannig að viðskiptavinurinn hafi val. Það má til dæmis sjá í vörum til heimilisins. Það sést til að mynda í nýjum umhverfisvænni tannburstum og eyrnapinnum sem við bjóðum upp á,“ segir Gréta María.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .