Magnús Garðarsson er fæddur á Íslandi árið 1970 en stærsta hluta ævinnar hefur hann búið í Danmörku. Hann er kvæntur danskri konu og eiga þau tvö börn saman en Magnús á einnig tvö önnur börn úr fyrra sambandi. Börnin eru tveggja til fjórtán ára gömul. Fjölskyldan hyggst flytja til Íslands í byrjun næsta árs, þar sem Magnús hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri United Silicon. „Ég bjó í Kópavogi og gekk í Kársnesskóla en þegar ég var níu ára flutti fjölskyldan til Kaupmannahafnar,“ segir Magnús. „Ég hef búið í Danmörku mest allt mitt líf þó ég komi mjög reglulega til Íslands. Ég hef náttúrlega verið með annan fótinn á Íslandi síðustu misserin útaf þessu kísilverkefni.“

Magnús lærði verkfræði í Tækniháskólanum í Danmörku (DTU) og Florida Atlantic University (FAU). Hann lauk síðan meistaranámi í umhverfisverkfræði frá DTU. „Það þekkja margir Íslendingar þennan skóla enda líklega besti verkfræðiskólinn í Skandinavíu.“ Á meðan Magnús var í námi í DTU lagði hann stund á dýfingar og varð tvisvar Danmerkurmeistari í þeirri grein. Hann tók hluta af náminu við Florida Atlantic háskólann í Boca Raton í Bandaríkjunum. Ástæðan fyrir þeirri ákvörðun var ekki síst sú að við háskólann voru góðir þjálfarar og hann hugðist reyna að komast á Ólympíuleikana í Atlanta árið 1996.

„Ég var ansi nálægt því að komast á Ólympíuleikana en ég meiddist á hné í lok árs 1995 og þar með var sá draumur úti.“ Eftir háskólanámið var Magnús ráðinn til danska ráðgjafa- og verktakafyrirtækisins Kampsax. Magnús segir að þetta hafi verið mjög rótgróið 100 ára gamalt fyrirtæki en árið 2001 hafi fyrirtækið COWI keypt reksturinn. „Þegar þetta gerðist var ég líka ráðinn til COWI, sem er mjög stórt ráðgjafafyrirtæki með fjögur þúsund manns í vinnu. Ég starfaði hjá Kampsax og COWI í tíu ár eða allt til ársins 2004. Þá ákvað ég að fara út í eigin rekstur og stofnaði þróunarfélagið Tomahawk Development með dönskum félaga mínum sem heitir Thomas.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .