Eva Kjer Hansen sagði í dag af sér sem umhverfis- og matvælaráðherra Danmerkur. Gaf hún út yfirlýsingu þar sem fram kom að hún hefði tilkynnt forsætisráðherra ákvörðun sína.

„Ég hef verið ánægð í starfi á hverjum degi sem um­hverf­is- og mat­vælaráðherra,“ sagði m.a. í yfirlýsingu hennar. Talsverð togstreita hefur verið á danska þinginu eftir að Íhaldsflokkurinn lýsti yfir vantrausti á Hansen fyrr í vikunni. Þrátt fyrir stuðning frá forsætisráðherranum Lars Løkke Rasmus­sen taldi hún best fyrir ríkisstjórnina að hún segði af sér embætti.

Málið hófst vegna landbúnaðarfrumvarps þar í landi og var Hansen sökuð um að gefa eftir bændasamtökum og notað tölur frá þeim til að réttlæta samninginn. Þrátt fyrir að Íhaldsflokkurinn sé einungis með sex sæti á þingi er stuðningur hans mikilvægur fyrir Venstre flokkinn.

Fréttirnar hafa skiljanlega vakið mikla athygli í Danmörku og keppast þarlendir fjölmiðlar við að greina hvaða áhrif þessi afsögn gæti haft.