Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, var einn aðalræðumanna á fundi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO)  í Róm fyrr í þessari viku. Fundurinn fjallaði um kynja- og loftslagmál, og var haldinn í tengslum við alþjóðlega kvennadaginn 8. mars. Ráðherrann átti fund með ítalska umhverfisráðherranum, og að sögn var þar meðal annars rætt um áhuga Ítala á því að nota íslenska tækni við sorpeyðingu.

„Tilgangur fundarins var að koma stöðu kvenna rækilega inn í umræðuna um loftslagsbreytingar, en sem kunnugt er gegna konur miklu hlutverki í fæðuframleiðslu í þróunarríkjunum. Þessi þáttur hefur að mati FAO verið vanræktur í umræðunni um loftslagsbreytingar, en afleiðingar þeirra eru líklega einn stærsti vandi, sem mannkynið þarf að takast á við í framtíðinni, ekki síst hvað varðar lífsafkomu fólks í viðkvæmum landbúnaðarsamfélögum í þróunarríkjunum,” segir í frétt frá umhverfisráðuneytinu.