Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra afhenti forsvarsmönnum Alnæmisbarna og Alnæmissamtakanna styrki í dag, hvorn að andvirði 200.000 kr. Umhverfisráðherra ákvað að senda ekki út jólakort með kveðjum ráðherra og starfsfólks en verja andvirði kortanna þess í stað til góðgerðamála.

Félagið Alnæmisbörn var stofnað árið 2004 til að styðja starf Candle Light Foundation í Kampala í Úganda. Candle Light Foundation var stofnað af Erlu Halldórsdóttur árið 2001 til að styðja ungar stúlkur sem orðið hafa fyrir barðinu á alnæmi. Það gerði hún með því að stofna kertagerð sem framleiðir kerti og skapaði þannig tekjur fyrir heimilislausar stúlkur.

Alnæmissamtökin á Íslandi vinna að því að auka þekkingu og skilning á alnæmi og styðja sjúka og aðstandendur þeirra.