Umhverfisstofnun hefur stefnt þrotabúi Wow air vegna sölu skiptastjóra á losunarheimildum eftir að félagið var lýst gjaldþrota. Wow air seldi losunarheimildir fyrir 450 milljónir króna skömmu áður en félagið varð gjaldþrota.

Þorsteinn Einarsson, annar skiptastjóri Wow air, segir söluna hafa numið örfáum milljónum króna.  Þær losunarheimildir sem eftir stóðu voru einnig seldar af skiptastjórum eftir að félagið var lýst gjaldþrota. Dómsmál Umhverfisstofnunar snýst um þá eignasölu.

Umhverfisstofnun telur að þrotabúinu hafi borið samkvæmt lögum að skila inn losunarheimildunum. Málið nú kemur til viðbótar við 3,8 milljarða króna sekt sem Umhverfisstofnun lagði í sumar á Wow fyrir að eiga ekki losunarheimildir fyrir útblæstri. Sektin er flokkuð sem almenn krafa í þrotabúið og því er nær útilokað að nokkuð fáist upp í þá kröfu.