Ummæli í greinargerð frumvarpsdraga um breytingu á lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur og endurskoðun virðast hafa farið nokkuð öfugt ofan í endurskoðendur landsins. Breytingu um gjaldfrjálsan aðgang að ársreikningaskrá er fagnað en ýmsir setja spurningarmerki við útvíkkun á skilgreiningu á einingu tengdri almannahagsmunum.

Frumvarpsdrögin voru birt í samráðsgátt stjórnvalda undir lok síðasta mánaðar. Með frumvarpinu er stefnt að því að auka upplýsingagjöf og gagnsæi í rekstri stærri óskráðra félaga hér á landi. Í greinargerð með því segir að aðgerðin sé liður í áætlun ríkisstjórnarinnar um að auka traust á íslensku atvinnulífi.

Meðal breytinga sem frumvarpsdrögin fela í sér er að fyrirtæki í stóriðju, orkufyrirtæki, flugfélög, fjarskiptafélög og skipafélög í millilandaflutningum munu falla undir skilgreininguna á einingum tengdum almannahagsmunum. Þá munu stór fyrirtæki í sjávarútvegi einnig gera það. Áætlað er af höfundum frumvarpsins að um þrjátíu félög muni falla þarna undir en það er dregið í efa af nokkrum umsagnaraðilum.

Fjöldi fyrirtækja sem falla undir vanmetinn

„Þar sem lítil og meðalstór félög í stórum samstæðum innan umræddra atvinnugreina teljast einnig einingar tengdar almannahagsmunum samkvæmt frumvarpsdrögunum, má gera ráð fyrir því að framangreind tala á fjölda félaga sé töluvert vanmetin,“ segir í umsögn Deloitte um drögin.

Orkusalan er eitt þeirra fyrirtækja sem samkvæmt lögunum myndi falla undir skilgreininguna þar sem félagið starfrækir raforkuver. Telur félagið það ekki samræmast markmiðum frumvarpsins að dótturfélög undir hugtakið án þess að nokkur greining fari fram á umfangi starfsemi þeirra eða þjóðhagslegu mikilvægi þeirra. Frumvarpið feli í sér óþarfa tvítekningu þar sem umræddar upplýsingar er varða dótturfélögin kæmu fram í samstæðureikningum. Í svipaðan streng er tekið í umsögn Reikningsskilaráðs.

Í umsögn Deloitte er enn fremur bent á það að óveruleg viðbótar upplýsingaskylda felist í reikningsskilum félaga tengdum almannahagsmunum. Áhrif frumvarpsins yrðu því langmest á lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru hluti af stórum samstæðum.

„Í stað þess að leggja slíkar kröfur á lítil og meðalstór félög væri eðlilegra að þau væru undanþegin skilgreiningunni, en móðurfélag í stórri samstæðu sem hefur einhverja af umræddum atvinnugreinum fyrir meginstarfsemi myndi falla undir skilgreininguna og orðið yrði við kröfum um aukna upplýsingaskyldu í samstæðuársreikningi,“ segir í umsögn Deloitte.

Þar er enn fremur bent á að aðrar leiðir séu færar. Til að mynda væri unnt að skylda einingar tengdar almannahagsmunum til að birta árshlutareikninga eða stytta fresti sem félögin hafa til að skila inn ársreikningum. Einnig væri hægt að skylda stór félög og samstæður til að gera reikningsskil sín í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) sem gera ríkari kröfur um upplýsingagjöf en íslensk lög.

Enginn munur á endurskoðun stórra eða smárra félaga

Í umsögn Félags löggiltra endurskoðenda (FLE) er þeim tilmælum beint til höfunda frumvarpsins að kveða skýrt á um það í lögum hvort skýrsla stjórnar teljist hluti ársreiknings eður ei. Svo er ekki samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum en kveðið er á um slíkt í lögum um ársreikninga.

„FLE telur brýnt að ársreikningalög kveði skýrt á um þessi atriði og telur eðlilegast að skýrsla stjórnar fylgi ársreikningi en sé ekki hluti hans og þar með ekki undir í endurskoðun hans. Það breytir þó ekki því að endurskoðendur skirrast ekki við að vinna þá endurskoðunar- og staðfestingarvinnu sem löggjafinn telur rétt að unnin sé vegna skýrslu stjórnar,“ segir í umsögn FLE.

FLE leggur einnig til að gerðar verði kröfur til félaga um óháða ytri staðfestingu á ófjárhagslegum upplýsingum, svo sem upplýsingar um umhverfismálefni og stjórnhætti, sem fylgja ársreikningum. Sá háttur sé hafður á samkvæmt alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum og rétt að svo sé einnig hér.

Líkt og Deloitte gerir FLE einnig athugasemd við að félög sem eru hluti af stórri samstæðu falli undir skilgreininguna á einingu tengdri almannahagsmunum. Þá er óhætt að segja að ummæli í greinargerð, þess efnis að gildandi lög geri „kröfur um vandaðri endurskoðun“ og sérstakar kröfur vegna eininga tengdum almannahagsmunum „feli í sér strangari gæðakröfur“, hafi farið öfugt ofan í endurskoðendur.

„FLE vill árétta að enginn munur er á endurskoðun eininga tengdum almannahagsmunum og endurskoðun annarra félaga enda gera alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar engan greinarmun þar á,“ segir í umsögn FLE. Að mati Deloitte felst í ummælunum „ákveðinn misskilningur“.

KPMG telur Skattinn vanrækja skyldu til birtingar

Allir umsagnaraðilar fagna því að ársreikningaskrá verði gerð aðgengileg og gjaldfrjáls en í umsögn KPMG er lagt til að gengið verði skrefinu lengra. Að mati félagsins er rétt að allar upplýsingar og gögn, jafnt úr fyrirtækja- og ársreikningaskrá, verði gerðar aðgengilegar án endurgjalds á opinberu vefsvæði. Að mati KPMG ætti skyldan að ná yfir öll skönnuð skjöl og gögn, þar með talið fundargerðir og bókanir í gerðarbækur félaga.

Árið 2017 voru uppflettingar í fyrirtækjaskrá gerðar gjaldfrjálsar en enn hefur þurft að greiða fyrir afrit af umræddum skjölum. Þó er allur gangur á því hvort Skatturinn innheimti það gjald eður ei.

„Í kjölfar lagabreytingarinnar var ein breyting gerð á rafrænni uppflettingu í fyrirtækjaskrá en sú er að nú er tilgreindur „forráðamaður“ félags, en sá aðili er annað hvort stjórnarformaður eða eini stjórnarmaður viðkomandi félags. Engar upplýsingar um aðra stjórnarmeðlimi, framkvæmdastjóra, endurskoðanda, prókúruhafa eða annað sem skráningarskylt er samkvæmt lögum. Þar að auki má nefna að ársreikningar eru ekki aðgengilegir. Aðgangur að slíkum upplýsingum er enn háð [sic!] gjaldtöku,“ segir í umsögn KPMG. Að mati félagsins er Skatturinn með þessu að vanrækja skyldur sínar samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá.

Að endingu er vert að nefna umsögn Viðskiptaráðs Íslands og síðan sameiginlega umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samorku, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka verslunar og þjónustu. Þar er gagnrýnt að ekki hafi farið fram fullnægjandi mat á áhrifum breytingatillögunnar, til að mynda kostnaðarauki fyrirtækja og hve mörg fyrirtæki muni falla undir skilgreininguna, áður en frumvarpsdrögin voru kynnt.