Sérfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu Gamma segir að ástæða mikillar veltu á skuldabréfamarkaði megi rekja til ummæla Más Guðmundssonar á nefndarfundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun. Veltan er komin upp í 24,5 milljarða króna núna þegar klukkan er korter í fjögur. „Ég myndi að öllu leyti rekja þetta til orða Más,“ segir Valdimar Ármann hjá Gamma.

Á fundinum vakti Már athygli á því að afgangur af viðskiptum við útlönd hefði verið lítill á síðasta ári eftir mikinn afgang árin á undan. Þá hefðu verðbólguvæntingar ekki minnkað þótt verðbólga væri lág núna. Þessi orð gætu útskýrt mikla veltu á skuldabréfamarkaðnum. Viðskiptin hafa nánast einungis verið með óverðtryggð bréf.