Atvinnuleysi hefur minnkað hratt undanfarin misseri. Fyrstu mánuði ársins var atvinnuleysið yfir 4 prósentum, en í júní mældist það 2,9% samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag.

Þegar leiðrétt er fyrir árstíðarsveiflum í atvinnustigi mældist 3,2% atvinnuleysi í síðasta mánuði. Í nýjustu Peningamálum sínum spáði Seðlabanki Íslands því að atvinnuleysi myndi vera um 3,5% á þessu ári. Atvinnuleysið í síðasta mánuði var því nokkuð undir því gildi sem bankinn spáði að myndi vera á árinu að jafnaði.

Í sérstakri umfjöllun um jafnvægisatvinnuleysi frá því árið 2013 sagðist bankinn telja að jafnvægisatvinnuleysið um þessar myndir væri á bilinu 3,5 til 4,5 prósent. Atvinnuleysi undir því gildi myndi leiða til spennu á vinnumarkaði sem á endanum kæmi fram í auknum launahækkunum og meiri verðbólgu. Seðlabankinn sagði slíka spenna meðal annars hafa myndast á þensluárunum fyrir fjármálahrunið, þegar atvinnuleysi var langt undir jafnvægisgildi sínu.