Forgangsverkefni Seðlabanka Evrópu er að vinna gegn verðbólgu og koma þannig í veg fyrir að verðbólguvæntingar almennings fari úr böndunum. Þetta kom fram í máli Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóra, þegar hann rökstuddi ákvörðun seðlabankans að halda stýrivöxtum á evrusvæðinu óbreyttum í 4% á fjölmiðlafundi í Frankfurt í gær.

Peningamálanefnd Englandsbanka ákvað einnig að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,25%, þar sem ekki þóttu nægjanlegar  vísbendingar um djúpa niðursveiflu í hagkerfinu sem réttlættu frekari stýrivaxtalækkanir. Englandsbanki hefur lækkað stýrivexti í tvígang um 25 punkta frá því í desember á síðasta ári. Ummæli Trichet þóttu til marks um að Seðlabanki Evrópu muni ekki hefja vaxtalækkunarferli sitt á næstunni. Trichet sagði að markmið Seðlabanka Evrópu væri að halda aftur af verðbólguvæntingum til meðallangs- og lengri tíma.

„Núverandi peningastefna bankans myndi hjálpa til við að ná þessu markmiði“, sagði Trichet.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .