Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir að grundvallarspurningar eins og kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustu eigi ekki að ræða samhliða öðrum stórum málum eins og fjárlögum ríkisins. Þetta sagði Katrín í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag. Sú umræða ætti eftir að fara fram siðar.

Katrín fagnaði því að náðst hefði sátt um að ljúka þingi fyrir jól. Einnig fagnaði hún því að náðst hefðu breytingar á fjárlagafrumvarpinu þannig að atvinnulausir fengu desemberuppbót greidda og ákvæði um legugjöld hefðu fallið út.

„Slík grundvallaratriði á ekki að taka upp í umræðum um stór mál á borð við fjárlög og reyna að keyra þau í gegn heldur einmitt að gefa þeim þá umræðu sem þarf,“ sagði Katrín. Hún bætti því við að þarna væri um að ræða grundvallarspurningu um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Það væri sitt sjónarmið, og sjónarmið VG, að kostnaðarþátttaka sjúklinga ætti að vera sem minnst.