Harðar hefur verið tekist á með orð að vopni á vettvangi stjórnmálanna en áður. Umræðurnar hafa verið óvægnar, harkalegar og stormasamar á köflum, að mati Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Hún sagði í áramótaávarpi sínu í Ríkissjónvarpinu (RÚV) í gær aldrei sínum langa ferli sem stjórnmálamaður hafa kynnst öðru eins. Þetta var síðasta ávarp Jóhönnu.

Jóhanna gerði erindi Lars Christensen, forstöðumanns hjá greiningardeild Danske Bank, að umfjöllunarefni sínu í ávarpinu og dró fram að helsta afrek landsins hafi verið að hér hefði þjóðin tekist á við afleiðingar hrunsins án stórkostlegra uppþota, verkfalla og átaka eins og raunin hefur verið í öðrum löndum.

„Þetta vakti sérstaka athygli mína, enda hefur það almennt verið upplifun okkar Íslendinga að allt frá hruni hafi samfélagið einkennst af hörðum átökum og heift [...] En líklega hefur danski sérfræðingurinn mikið til síns máls,“ sagði Jóhanna, tæpti á stöðunni í hruninu og nú um stundir og bætti við:

„Sannarlega hafa þó margir liðið vegna hrunsins og óánægjan verið mikil, en þau miklu og eðlilegu hagsmunaátök sem átt hafa sér stað hafa góðu heilli að mestu fundið sér farveg í samfélagslegri og pólitískri umræðu.“

Áramótaávarp forsætisráðherra