Haraldur Þórðarson hefur starfað sem framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækisins Fossa markaða hf. frá stofnun þess á síðasta ári. Á skömmum tíma hefur fé­lagið náð að skapa sér sess á íslenskum fjármálamarkaði sem einn af helstu þjónustuaðilum fyrir innlenda og al­ þjóðlega fagfjárfesta. Haraldur segir að framundan séu mikilvæg tímamót þar sem heimurinn muni opnast innlendum fjárfestum þegar fjármagnshöftum verður aflétt. Jafnframt telur hann jákvætt að erlendir fjárfestar sýni Íslandi áhuga.

Vaxandi áhugi erlendra fjárfesta

Þið hafið strax frá upphafi verið mikið að þjónusta erlenda aðila sem leita til Íslands?

„Við höfum verið sá aðili sem alþjóð­ legir fjárfestar á verðbréfamarkaði hér heima hafa leitað hvað mest til. Teymið hjá Fossum hefur mikla alþjóðlega reynslu og býr að stóru tengslaneti utan landsteinanna. Og í rauninni finnst mér þessi staðreynd vera ákveð­ inn gæðastimpill á starfsemi Fossa því þetta eru þrautreyndir fjárfestar sem sætta sig ekki við neitt annað en það besta frá samstarfsaðilum sínum. Þetta á auðvitað líka við um innlenda viðskiptavini okkar sem við þjónustum ekki síður vel.“

Upplifirðu að erlendum fjárfestum þyki Ísland vera spennandi fjárfestingarkostur?

„Það hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Fyrstu árin eftir hrunið var lítill áhugi nema hjá mjög sérhæfðum hópi fjárfesta sem fjárfestu fyrst og fremst í skuldum sem mikil óvissa ríkti um endurheimtur á. Hefðbundnari fjárfestar, það er verð­ bréfasjóðir, voru ekkert spenntir fyrir því að fjárfesta hér á þeim tíma en íslenska hagkerfið hefur náð að rétta mjög vel úr kútnum á undanförnum árum og hagstærðir líta einstaklega vel út í dag. Þannig að jafnt og þétt með árunum hefur áhuginn aukist og í flestum tilvikum eru þetta fjárfestar sem deila þeirri langtímasýn að þróun í hagkerfinu verði áfram farsæl.“

Finnurðu fyrir því að hin svokölluðu vaxtamunaviðskipti séu að færast í aukana á ný?

„Mér finnst þessi umræða um vaxtamunaviðskipti hafa verið á villigötum. Í hefðbundnum skilningi byggja vaxtamunaviðskipti á því að fjármagna stöðutökur í hávaxtamyntum með lántökum í lágvaxtamyntum. Ég get ekki sagt að ég hafi orðið var við slík viðskipti hérna á undanförnum árum. En það er staðreynd að vextir hér á Íslandi eru hlutfallslega háir og það laðar óhjákvæmilega að fjármagn, sérstaklega í ljósi þess lágvaxtaumhverfis sem við búum við í hinum vestræna heimi. Án þess að ég geti farið út í smáatriði þá er mín reynsla sú að þeir erlendu við­ skiptavinir sem hafa sýnt áhuga á að fjárfesta hér á landi eru í langflestum tilvikum með langtíma sjónarmið að leiðarljósi og deila þar með hagsmunum okkar Íslendinga á áframhaldandi hagsæld hér á landi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .