Jóhannes Þór Skúlason nýr framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir þörf á skýrari framtíðarsýn í ferðamennsku hér á landi eins og í sumum öðrum málum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um segir Jóhannes Þór nauðsynlegt að meira samráð sé haft við samtökin vegna hugmynda um ýmis konar aukin gjöld á ferðaþjónustuna sem skapi óvissu í rekstrarumhverfinu.

Eins og hlaupið á eftir Strætó

Hann vill að umræðunni sé lokað og tekin ákvörðun um hvaða gjöld eigi að vera en ekki sífellt verið að bæta við viðbótargjöldum sem klípi meira og meira af rekstrinum. Spurður hvort ástæðan sé ekki einfaldlega sú að menn hafi mismunandi hugmyndir og enn sé verið að takast á um þær segir hann það að hluta til rétt.

„En það er líka að hluta til vegna þess að greinin hefur stækkað svo hratt á skömmum tíma. Íslenskt samfélag hefur svolítið verið eins og að hlaupa á eftir Strætó með það, en nú erum við komin á þann tímapunkt að við sjáum hver staðan er í dag og mögulega á hvaða bili ferðaþjónustan er líkleg til að ná jafnvægi til framtíðar. Þá er mjög mikilvægt að við horfum skýrt á það hvert við viljum fara og hvaða skref þarf að taka til að komast þangað,“ segir Jóhannes Þór en hann segir að umræðan hér á landi geti oft orðið ansi skrítin.

„Ferðamennska í heiminum er að aukast, en það er viðvarandi fimm til sex prósenta vöxtur ferðamanna í heiminum árlega. Hér á Íslandi höfum við verið með allt upp í 40% vöxt á milli ára, en í maí vorum með 13% vöxt á milli ára og allt í einu er það álitið vera lítið. Okkur finnst það því vöxturinn hér hefur verið úr öllu alþjóðlegu samhengi, en frá árinu 2000 höfum við farið úr um 300 þúsund ferðamönnum upp í 2,2 milljónir á síðasta ári. Ísland er einfaldlega komið á ferðamannakortið og verður það áfram, það er nóg til af fólki. Allt tal um að ferðaþjónustan sé að hrynja er því heldur skringilegt, ferðaþjónustan er komin til að vera sem grundvallaratvinnugrein á Íslandi. Fókusinn ætti að vera á hvernig styðja má best við hana til framtíðar og ekki síður hvernig hún getur best stutt við samfélagið.“

Deildar meiningar um tollvegi

Vegna mikillar umræðu í þjóðfélaginu síðustu ár, bæði út af auknu álagi vegna ferðamannastraumsins og minna viðhalds eftir hrunið, leggur Jóhannes Þór áherslu á nauðsyn þess að gert verði stórátak í því að byggja upp innviði eins og samgöngur.

Hann viðurkennir þó að mismunandi hugmyndir séu innan samtakanna, eins og samfélagsins í heild, til ýmissa hugmynda um hvernig það skuli gert, eins og til að mynda um að láta ferðamenn taka þátt í kostnaðinum við að flýta uppbyggingu í kringum höfuðborgina með tollvegum sem virðast hafa horfið með fyrri ríkisstjórn.

„Með þessa gjaldtöku eins og annað, þá verða stjórnvöld að gera upp við sig hvort þau vilja láta íbúa landsins taka þátt í gjaldtökunni eða ekki, taka mið af því hve raunhæf fjölgun ferðamanna geti verið og taka tillit til rekstrarumhverfis fyrirtækjanna,“ segir Jóhannes Þór.

„Við sem atvinnugrein erum ekki með neina töfralausn á þessum málum öllum frekar en aðrir, en við erum tilbúin að taka þátt í samtali um þau. Þetta ræðst allt af því heildarsamhengi sem við ræddum um áðan að þurfi að liggja ljóst fyrir. Lykilatriðið er að settur sé kraftur í framkvæmdir í þessum málaflokki. Hvorki ferðaþjónustan né samfélag í heild geta beðið lengur eftir því.“

Valdið heim í sveitina

Jóhannes Þór nefnir togstreituna milli ríkis og sveitarfélaga um skiptingu tekna af ferðaþjónustu sem og hve mikill sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga í þessum málum eigi að vera.

„Eitt af því sem við þurfum að ræða í þessu samhengi eru hugmyndir um að hluti gistináttagjalds renni til sveitarfélaganna, verði það lagt á áfram. Þær eru að mörgu leyti skynsamlegar því það er jákvætt að hluti tekna sem þannig verða til í viðkomandi sveitarfélagi verði eftir þar. Eins má skoða að sveitarfélög fái eitthvað að segja til um það hver hámarksdagafjöldinn í heimagistingu sé á sínu svæði. Af fyrirmyndum erlendis sést að þar er allur gangur á þessu. Ég sé ekki ástæðu til þess að allar stjórnsýsluákvarðanir séu teknar af ríkinu. Dreifðari stjórnsýsla getur verið jákvætt skref í þessu eins og öðru.“

Þola illa of marga aðra ferðamenn

Annað þessu tengt sem Jóhannes Þór segir að vanti skýrari stefnumótun um, er aðgangsstýring með gjaldtöku eða öðrum leiðum eins og Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri hefur talað fyrir.

„Það eru vissulega ákveðnir staðir, sérstaklega í kringum höfuðborgina og á Suðurlandi, þar sem þarf að huga að átroðningi og þar með aðgengi, og hugsanlega einhvers konar aðgangsstýringu, því meirihluti ferðamanna er að fara á þessa staði. Það er raunveruleg áskorun sem við þurfum að takast á við og þarf að byrja að ræða strax,“ segir Jóhannes Þór sem bendir á í þessu samhengi að umræðan um upplifun ferðamanna sé ekki alltaf í samræmi við upplifun ferðamannanna sjálfra.

„Eitt af því sem ferðamenn þola illa, eru of margir ferðamenn, svo maður hefði haldið að þessi upplifun Íslendinga um átroðning ætti að koma sterkt fram meðal ferðamanna. En það er mjög ánægjulegt að sjá í könnunum að hún gerir það ekki. Yfir 90% ferðamanna eru það ánægðir með dvölina að þeir hyggjast mæla með Íslandi sem áfangastað fyrir aðra og allt að fimmtungur ferðast aftur til íslands. Þegar menn tala um að Ísland sé uppselt, það sé svo mikið af ferðamönnum hérna, að við séum með massatúrisma og þess háttar þá vil ég segja að þetta sé ekki rétt. Ísland er ennþá mjög lágt á listanum yfir ferðamannalönd í heiminum þó að með hlutfallinu sjö á móti einum séum við auðvitað gríðarlega há ef miðað er við höfðatölu.“

Jóhannesi Þór finnst umræðan hér á landi undarlega neikvæð með tali um að hún sé komin í frjálst fall, að það sé svo mikil græðgisvæðing og allt of margir ferðamenn. „Þá eru valin einhver dæmi um að vafla einhvers staðar sé heldur dýrari en maður átti von á meðan ferðamennirnir sjálfir eru ánægðir. Ísland hlaut meira að segja fyrir skömmu verðlaun Tripadvisor fyrir bestu upplifun ferðamanna,“ segir Jóhannes Þór.

„Staðreyndin er því sú að Ísland er ekki uppselt, ferðamenn eru almennt mjög ánægðir með heimsóknina og íslensk ferðaþjónustufyrirtæki eru almennt að standa sig vel og veita ferðamanninum góða þjónustu og jákvæða upplifun. Það er ekki þannig að ferðaþjónusta á Íslandi í dag stjórnist af græðgi, þó að fólk sé auðvitað að hugsa um að hafa í sig og á og ná einhverju út úr fyrirtækinu, sem er það sem atvinnurekstur gengur út á.“

Samþjöppun ekki óholl en sársaukafull

Jóhannes segir að ef farið er út fyrir áðurnefnd svæði á Suðvestur- og Suðurlandi, þá sé viðkvæðið frá öllum að þeir gætu tekið við miklu fleirum og að það sé ein af stóru áskorunum í ferðamennsku á Íslandi að dreifa ferðamönnunum betur um landið.

„Sérstaklega á þau svæði þar sem uppbyggingin getur gefið svæðunum svo mikið, til dæmis á norðausturhorninu og Vestfjörðum. Það ættu stjórnvöld að styðja enn betur við því að möguleikar til uppbyggingar atvinnutækifæra á landsbyggðinni eru einna mestir í þessari grein. Svo þarf auðvitað líka að reyna að fá ferðamenn hingað allt árið en í því hefur náðst töluverður árangur,“ segir Jóhannes Þór sem er jafnframt bjartsýnn á að ákveðið jafnvægi sé að nást í ferðamennskunni á Íslandi.

„Atvinnugreinar sem fara í gegnum jafngríðarlegan vöxt og ferðaþjónustan hefur gert munu nánast alltaf fara í gegnum einhvern samþjöppunarfasa, sem ég held að sé ekki beinlínis óhollt, en því fylgir sársauki. Við erum kannski farin að sjá byrjunina á þeirri þróun núna að við séum að fara úr þessum gríðarlega vaxtafasa yfir í að ná því jafnvægi sem við þurfum að ná hérna á næstu árum. Ísland er orðið ferðamannaland og ferðaþjónusta er orðin undirstöðuatvinnugrein í efnahagslífi landsins, stærri en álframleiðsla og sjávarútvegur samanlagt.

Vöxtur ferðamennskunnar verður væntanlega í framtíðinni svipaður eða kannski aðeins meiri en í Evrópu almennt og tækifærið sem við stöndum frammi fyrir er að ná jafnvægi þannig að ferðaþjónustan haldi áfram að skila samfélaginu stöðugum ávinningi inn í framtíðina. Til þess þarf starfsumhverfið að vera stöðugt og stjórnmálin að sýna það í verki að þau vilji byggja það upp á skynsamlegan hátt.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .