Greiningardeild Glitnis hefur hækkað verðmatsgengið sitt á Landsbankanum í 39 krónur á hlut, úr 36 krónum á hlut. Markgengið er óbreytt eða 42 krónur á hlut. Þegar þetta er skrifað er markaðsgengið 40,25 krónur á hlut, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Ráðleggur greiningardeildin fjárfestur að halda bréfum í Landsbankanum.

?Við gerum ekki ráð fyrir því að yfirstandandi umrót á fjármagnsmörkuðum heimsins hafi teljandi áhrif á vöxt og afkomu Landsbankans,? segir greiningardeildin. ?Við byggjum þá skoðun okkar á því að bankinn er vel fjármagnaður og þarf ekki að leita sér fjármagns á skuldabréfamörkuðum. Við teljum að þær markaðssyllur sem bankinn starfar á skapi honum sérstöðu auk þess sem fjárfestingabankastarfsemi fyrir smá og millistór fyrirtæki verði fyrir minni neikvæðum áhrifum en markaðurinn fyrir stórfyrirtæki. Þessari forsendu fylgir þó ákveðin óvissa sem mun væntanlega skýrast á næstu vikum.?

Greiningardeildin segist sjá vísbendingar í uppgjöri Landsbankans fyrir annan fjórðung 2007 um að vöxtur bankans verði meiri en hún vænti áður. ?Þess sjást greinileg merki í vexti útlána og þóknunartekna sem og í uppbyggingu starfstöðva. Yfirtaka á Bridgewell og samþætting eininga í Bretlandi virðist enn fremur ganga vel. Kostnaður bankans fer hratt hækkandi eins og búast mátti við og hækkum við forsendu okkar um kostnaðarhlutfall til samræmis við aukna vænta hlutdeild þóknunartekna í tekjumyndun bankans. ?