Kjör og lánstími á 300 milljóna evra (jafngildi 38 milljarða króna) gjaldeyrisforðaláni, sem forsætisráðherra tilkynnti um í síðustu viku, verða ekki gefin upp.

Samkvæmt upplýsingum frá Grétu Ingþórsdóttur, aðstoðarmanni forsætisráðherra, er lánið evrópskt sambankalán og var umsamið við lánveitanda að greina ekki frá kjörunum.

Geir H. Haarde greindi frá lántökunni í skýrslu um efnahagsmál sem hann kynnti þegar Alþingi kom saman í síðustu viku. Sagði hann þá að kjörin væru umtalsvert betri en skuldatryggingaálag ríkisins gæfi til kynna, en vegna leyndarinnar verður ekki hægt að sjá hve miklu munar.

Skuldatryggingaálag ríkisins var 270 punktar í gær.