Umsjónarmenn hlutafjárútboðs Century Aluminium [ CENX ], móðurfélags Norðuráls, hafa keypt öll bréfin sem í boði voru, samtals 6,5 milljón hluti. Í kjölfarið mun félagið selja til viðbótar 975 þúsund hluti á genginu 62,25 dollara á hlut. Álrisinn mun að líkindum hala inn 442 milljónum dollara vegna þessa, að því er segir í frétt Dow Jones.

Eins og áður hefur verið greint frá mun hluti þessara fjármuna renna til þess að losa sig undan framvirkum álverðssamningi sem gerður var við Glencore, stærsta hluthafa fyrirtækisins. Aukin heldur, til þess að losna undan framvirka samningnum greiðir Century Aluminium Glencore 978,8 milljónir í nýjum atkvæðislausum, breytanlegum bréfum og 730 milljónir dollara í peningum. Credit Suisse og Morgan Stanley stóðu að baki hlutafjárútboðinu.

Friedman, Billing & Ramsey hækkuðu á föstudaginn tólf mánaða markgengi sitt á álrisanum í 79 dollara á hlut úr 70.