Umtalsverður umsnúningur var í rekstri Nýherja hf. á þriðja ársfjórðungi.
Hagnaður nam 27 mkr eftir skatta samanborið við 7,7 mkr tap í sama fjórðungi árið áður.

Í tilkynningu félagsins til Kauphallar segir:

"Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir - EBITDA - var 73,1 mkr í fjórðungnum borið saman við 27.8 mkr í fjórðungnum árið áður. Rekstrartekjur fjórðungsins námu 1.330,7 mkr, en voru 1.029 mkr í sama fjórðungi árið áður og hækkuðu því um 29,3%. Vörusala jókst um 26% en þjónustutekjur jukust um 43% á milli ársfjórðunga.

Hlutfall EBITDA af veltu í fjórðungnum var 5,5% samanborið við 2,6% á sama tímabili árið áður. Starfsmönnum fjölgaði um 9% á sama tíma sem er vegna kaupa Nýherja á ParX ehf. viðskiptaráðgjöf. Launakostnaður, annar rekstrarkostnaður og afskriftir hækkuðu um tæp 16% á miðað við sama tíma árið áður. Veltufé frá rekstri nam 60,9 mkr en var 12,4 mkr í sama fjórðungi árið áður. Gengistap í fjórðungnum nam 1 mkr samanborið við 4,8 mkr á sama tíma árið áður. Tap af rekstri dótturfélaga nam 9,7 mkr, samanborið við 1,8 mkr hagnað á sama tímabili í fyrra.

Tap 3,8 mkr á fyrstu 9 mánuðum ársins.

Tap eftir skatta fyrstu níu mánuði ársins 2004 nam 3,8 mkr samanborið við 53,7 mkr hagnað á sama tíma árið áður. Rekstrartekjur tímabilsins námu 3.668,7 mkr og jukust um tæp 13% frá sama tímabili fyrra árs. Vörusala jókst um tæp 9% og þjónustutekjur jukust um tæp 26% miðað við sama tímabil árið áður. Hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir - EBITDA - var 132,7 mkr samanborið við 163 mkr á sama tíma árið áður. Veltufé frá rekstri nam 88 mkr samanborið við 134,4 mkr á sama tíma árið áður og handbært fé frá rekstri nam 113,3 mkr en var 13,2 mkr til rekstrar á sama tímabili árið áður. Gengistap nam 8,7 mkr samanborið við 9,4 mkr á sama tíma árið áður. Tap af rekstri dótturfélaga var 26,1 mkr samanborið við 7,3 mkr hagnað á sama tímabili árið áður.

Stjórn Nýherja samþykkti í dag árshlutareikning félagsins fyrir tímabilið 1. janúar til 30. september 2004. Árshlutareikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins. Félagið hefur hætt að verðleiðrétta reikningsskilin. Ef beitt hefði verið sömu reikningsskilaaðferð og á fyrra ári hefðu áhrif á afkomu tímabilsins verið óveruleg en eigið fé félagsins hefði verið 28 mkr hærra.

Viðsnúningur í þriðja ársfjórðungi

Veruleg aukning varð á tekjum félagsins frá þriðja ársfjórðungi síðasta árs, og bendir margt til þess að viðsnúningur sé að verða á upplýsingatæknimarkaðnum og vaxtarskeið í vændum. Þessi vöxtur er í samræmi við væntingar félagsins, og hafa áætlanir gengið eftir í þriðja ársfjórðungi eftir erfiðan fyrri árshelming.

Í ársfjórðungnum var gengið frá samningi við Eimskipafélagið um innleiðingu á SAP fjárhags- og flutningalausn, ásamt sölu á SAP hugbúnaðarleyfum. Einnig var unnið áfram að innleiðingu á SAP bankalausnum fyrir KB banka í Svíþjóð og Finnlandi, og samið um innleiðingu á SAP mannauðs- og launalausnum fyrir nokkur stærri fyrirtæki. Markaðssetning hófst fyrr á árinu á hugbúnaðarlausnum og ráðgjöf fyrir Microsoft.Net umhverfið í samræmi við enn frekari áherslur Nýherja á því sviði og er verkefnastaða þar vænleg.

Sala á IBM netþjónum og geymslulausnum var góð í ársfjórðungnum, og eru fyrirtæki í vaxandi mæli að fjárfesta í nýjum hagkvæmum og hraðvirkari búnaði. IBM hefur nú ákveðið forskot á markaðnum með nýrri tækni sem m.a. byggir á Power5 örgjörva og fleiri nýjungum sem komið hafa frá rannsóknastofum IBM á liðnum misserum. Sala á PC tölvum var svipuð og á liðnu ári, en byggist nú að mestum hluta á fartölvusölu.

Í Rekstrarlausnum Nýherja var haldið áfram uppbyggingu á sérþekkingu á nýjum sviðum upplýsingatækni, og er aukning í sérhæfðri ráðgjöf og úttektum á upplýsingakerfum fyrirtækja og stofnana. Aukin verkefni eru hjá tæknimönnum og sérfræðingum sviðsins. Magnús Norðdahl, sem hefur verið framkvæmdastjóri Rekstrarlausnasviðs, lætur af störfum hjá félaginu í dag og hefur hann ráðið sig til starfa á öðrum vettvangi. Forstjóri félagsins mun gegna stöðu framkvæmdastjóra Rekstrarlausnasviðs um sinn.

Samskiptalausnasvið hóf umfangsmikla uppsetningu á fullkomnu samskipta- og öryggiskerfi hjá 101 Skuggahverfi ehf. Þar er verið að búa til hátæknisamfélag með IP símatækni, IP myndavélum og háhraðatengingu fyrir Internet. Einnig er ágæt þróun í sölu og uppsetningu á IP símstöðvum fyrir fyrirtæki.

Góð sala hefur verið í prentvélum og tengdum búnaði. Félagið hefur einnig annast uppsetningu á fullkomnum margmiðlunarlausnum fyrir nokkur stærri fyrirtæki og stofnanir, og einnig hefur sala á vörum frá Canon aukist. Umtalsverður vöxtur hefur orðið í starfsemi Skrifstofutækjalausna Nýherja á árinu.

Tap var á rekstri SimDex ehf. dótturfélags Nýherja, þar sem sala var verulega undir þróunarkostnaði hugbúnaðar fyrir rafrænar vörur. Hafin er rafræn sala á ?Málfrelsi" fyrir OgVodafone í verslunum Hagkaupa, og einnig notar danskt fyrirtæki kerfið til sölu á forgreiddri GSM þjónustu.

Klak ehf. hafði frumkvæði að stofnun ?Seed Forum Iceland" í samvinnu við Samtök sprotafyrirtækja, hjá Samtökum iðnaðarins, Tækniháskóla Íslands og UK Trade and Invest, en tilgangur þess er að auka aðgengi sprotafyrirtækja að alþjóðlegu fjármagni. Klak var einnig aðili að rannsóknarverkefnum á vegum Evrópusambandsins, og vann að ráðgjafaverkefnum fyrir nokkur sprotafyrirtæki.

Eigið fé Nýherja í lok tímabilsins var 1.185,2 mkr og á félagið eigin bréf að nafnverði 26,37 mkr sem eru tæp 10% hlutafjár.

Horfur á upplýsingatæknimarkaði eru nú vænlegar og mörg teikn á lofti um að vaxtarskeið sé framundan. Áætlanir Nýherja gera ráð fyrir áframhaldandi vexti í yfirstandandi ársfjórðungi, og viðunandi afkomu af rekstri.