Norræna ferðaskrifstofukeðjan Ticket, sem er að stærstum hluta í eigu Northern Travel Holding (29,3%), skilaði 400 þúsund sænskra króna hagnaði á fjórða ársfjórðungi eða um 40 milljónum króna. Í Hálffimm fréttum Kaupþings er vakin athygli á að þetta er í fyrsta skipti í 18 ára sögu félagsins sem það hagnast á síðasta ársfjórðungi ársins sem er jafnan erfiðasti tími ársins.

Velta félagsins nam 1.090 milljónum sænskra króna á 4F eða ríflega 10 milljörðum króna. Það var 51% aukning á milli ára. Þessi mikla aukning helgast að hluta til á aukinni sókn Ticket inn á markað með viðskiptaferðir, en í fyrra festi félagið kaup á MZ Travel sem sérhæfir sig í slíkum ferðum.

Í Hálffimm fréttum er einnig bent á að methagnaður var á rekstri félagsins fyrir árið 2007 en alls varð 37,7 milljónir sænskra króna hagnaður eftir skatta. Það var um 173% aukning á milli ára. Í þriggja ára áætlun, sem stjórnendur Ticket kynntu í dag, er markið sett á að fara með ársveltuna yfir 10 milljarða sænskra króna, sem yrði um tvöföldun að ræða frá núverandi veltu. Jafnframt er horft til þess að EBITDA-framlegð hækki úr 7% í 9%. FL Group á 35% hlut í Northern Travel en aðrir eigendur eru Fons og Sund.