2.099 umsóknir bárust um skólavist í Háskólanum í Reykjavík (HR) um nám á haustönn. Umsóknarfresturinn rann út á miðnætti 5. júní síðastliðinn. Þetta er 22% fleiri umsóknir en bárust í fyrra og 44% aukning frá árinu 2010. Umsóknirnar hafa aldrei verið fleiri í sögu skólans.

Mesta aukningin er í tölvunarfræðideild en þar fjölgaði umsóknum um ríflega 50% á milli ára. Þá er sömuleiðis mikil ásókn í nám í tækni- og verkfræðideild. Þetta er í takt við þau skilaboð sem komið hafa frá atvinnulífinu, sem hefur kallað eftir stóreflingu tæknimenntunar á Íslandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá HR.

Sérsvið HR eru kennsla og rannsóknir í tækni, viðskiptum og lögum, með áherslu á sterk tengsl við atvinnulíf og alþjóðlegt háskólasamfélag.

Nemendur HR eru í kringum 3.000. Skólinn útskrifar tvo af hverjum þremur sem ljúka tækninámi á háskólastigi á Íslandi, helming þeirra sem ljúka viðskiptanámi og þriðjung þeirra sem ljúka laganámi.