Umsóknir átta sparisjóða um að eigið fé þeirra verði aukið um allt að 20% eru enn óafgreiddar í fjármálaráðuneytinu.

Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi ráðherra, segir mál þeirra enn í vinnslu. Ýmislegt hafi komið upp á sem hafi tafið ferlið.

Til að mynda hafi einhverjir þeirra þurft að „taka á ýmsum málum hjá sér“ í kjölfar úttektar á eignum þeirra frá því í sumar.

Þegar hún er spurð hvenær niðurstöðu megi vænta svarar hún: „Það styttist í niðurstöðuna.“

Sparisjóðirnir sem um ræðir eru: Sparisjóðurinn í Keflavík, Byr-sparisjóður, Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Bolungavíkur, Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Svarfdæla og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis.