Kostnaður við fjórar umsóknir um IPA-styrki frá Evrópusambandinu sem tengdar eru byggða og atvinnuþróunarverkefnum á Vesturlandi nam 10-20 milljónum króna. Búið var að gefa vilyrði fyrir veitingu þriggja styrkja upp á á samtals 260 milljónir króna og var eitt verkefni til viðbótar á biðbekk eftir lokaafgreiðslu hjá ESB.

Fjallað er um málið í vikuritinu Skessuhorni.

Þrír milljarðar eyrnamerktir Íslandi

Þar segir m.a. að málið sé í biðstöðu eftir að ESB ákvað að undirrita ekki fleiri samninga um IPA-verkefni en frumskilyrði fyrir úthlutun til IPA-verkefna er að þau lönd sem taka á móti styrkjunum stefni að inngöngu í ESB. Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafa hins vegar ákveðið að gera hlé á aðildarviðræðum. Ríflega þrír milljarðar króna voru eyrnamerktir ýmsum verkefnum hér á landi.

Eins og kunnugt er sagði Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins, IPA-styrkina glópagull til þess fallna að æsa upp forstöðumenn ríkisstofnana og starfsmenn þeirra,

Í blaðinu segir að þau verkefni sem höfðu fengið vilyrði fyrir styrkjum eru Vatnavinaverkefnið, umsjónaraðili Fjórðungssambands Vestfjarða, vöruþróunarverkefni tengt auðlindanýtingu á Breiðafirði sem Matís stýrir og verkefni tengt málefnum nýbúa í umsjón Akraneskaupsstaðar. Verkefni Matarsmiðju Vesturlands á Hvanneyri er hins vegar á biðbekknum. Að verkefnunum komma Háskólinn á Bifröst, Borgarbyggð, Rauði krossinn á Akranesi og í Borgarnesi, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Þróunarfélag Snæfellinga, Náttúrustofa Vesturlands og fleiri.